137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:42]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir vekur athygli á, um lengd róðrar í 12 tíma, er því miður eitt af fjölmörgum óbrúklegum atriðum í þessu frumvarpi. Til að mynda varðandi 12 tíma lengdina er ekki tekið neitt tillit til þess að á Íslandi er mikið um veðrabrigði. Það er ástæðulaust að hvetja sjómenn til að fara á sjó í tvísýnu af því að tíminn er svo knappur. Veiðimannseðlið er þess eðlis að menn gera það. Og þá eiga lögin ekki að hvetja til þess.

Þetta er eitt af mörgum atriðum.

Svo er til að mynda samsetningin, 15% aflahlutfall af ufsa þýðir að ekki er hægt að nota þessa aðferð sums staðar í landinu. Það er bara ekki hægt. Það er ekki nokkur lifandi leið. Ótal mörg atriði í þessu valda því að þetta frumvarp er hrákasmíð, illa ígrundað, góð hugmynd að mörgu leyti en óbrúklegt og gerir ekkert annað en að veikja smærri byggðir landsins, sérstaklega veikari byggðirnar, veikja þær umfram það sem nú er — og til þess er ekki ástæða.