137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þar sem ég er á mælendaskrá á eftir ætla ég ekki að tefja fundinn með því að fara í mikla efnislega rökræðu en ég vil bara koma nokkru á framfæri vegna athugasemdar sem kom fram í máli hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar varðandi það að umsagnaraðilum hefði verið neitað um að koma á fund nefndarinnar.

Í fyrra tilvikinu, þar sem um er að ræða fulltrúa Landhelgisgæslunnar, þá varðaði það mál sem engan veginn er hægt að líta svo á að snerti þetta strandveiðifrumvarp sérstaklega heldur mál sem er í sjálfu sér þarft að ræða við Landhelgisgæsluna almennt og yfirleitt um öryggi sjófarenda og verður vafalaust gert innan tíðar.

Í hinu tilvikinu var um að ræða fulltrúa frá Samtökum eigenda sjávarjarða sem höfðu samband við nefndina og óskuðu eftir fundi eftir að nefndarálit var komið frá nefndinni. Þær athugasemdir komu ekki í tæka tíð. En þeim hefur að sjálfsögðu verið tjáð að þeir séu velkomnir á fund nefndarinnar til að ræða um hagsmuni eigenda sjávarjarða. Ég vildi koma þessu á framfæri á þessu stigi málsins.