137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér komið fram sem var meginmál og inntak ræðu minnar um þetta efni, að það sé nokkuð æskilegt að við ræðum þetta mál ítarlegar milli 2. og 3. umr. og nokkur efnisatriði þess sérstaklega. Einn angi af því er að væntanlega verður möguleiki á því að kalla Landhelgisgæsluna fyrir ef við teljum þess þurfa, það væri alveg hægt. Einnig er mögulegt að ræða álit og efnisatriði fulltrúa eigenda sjávarjarða, sem ég tel reyndar vera nokkuð stórt mál ef við skoðum það í tengslum við strandveiðar.

Að öðru leyti vænti ég þess að við munum ræða málið í nefnd á milli 2. og 3. umr. og vona að við komumst að ásættanlegri niðurstöðu. Ég tel ljóst af þessu máli að fresta þurfi ákvæðum um strandveiðarnar og að íhuga þurfi það betur. Eins með frístundaveiðarnar og þau atriði sem komu fram hjá eigendum þeirra skipa. Þeir töldu að það væri verulegur ágalli til að mynda á Reykjavíkursvæðinu að ekki mætti vera með þann fjölda stanga sem þeir þurfa og nota þar sem þeir stunda allt annars konar frístundaveiðar en sjóstangveiðarnar sem stundaðar eru á Vestfjörðum. Ég held að svona hlutir hefðu þurft að vera betur undirbúnir og að fjallað hefði verið um þá þannig að þeir væru ekki galli á gjöf Alþingis í þessu máli.