137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:10]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp um stjórn fiskveiða sem felur í sér að strandveiðar og handfæraveiðar yfir sumartímann eru gefnar frjálsar. Opnað er fyrir handfæraveiðar allra þeirra báta sem uppfylla skilyrði sem gerð eru til fiskiskipa sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni þannig að opnað er fyrir takmarkaðar veiðar þeirra sem ekki eru handhafar aflamarks eða krókaaflamarks.

Viðbrögð við þessu frumvarpi eru mikil úti í samfélaginu, eftirvæntingin er vissulega mikil, ég verð var við. Margir hafa haft samband, hringt, sent tölvupóst og forvitnast um hvar málið er statt og hvenær það verði afgreitt frá Alþingi, enda eftirvæntingin mikil.

Í þeirri ágætu bók 1984 eftir rithöfundinn George Orwell hafa handhafar valdsins fundið út þá aðferð að ef þeir taka orðið „frelsi“ út úr orðabókum muni fólk ekki lengur vilja frelsi. Þess vegna vekur það athygli mína að í áliti minni hlutans hefur nafni frumvarpsins, sem hingað til hefur verið í opinberri umræðu og snúist um frjálsar handfæraveiðar, verið breytt í „hið nýja banndagakerfi“ sem minni hluti nefndarinnar telur nú að eigi að vera nafnið á þessum lögum. Þetta er skólabókardæmi um það sem kallast spunastjórn í stjórnmálum, þ.e. að búa til neikvætt heiti yfir þá hluti sem manni er illa við og draga þannig upp málið allt í neikvæðri mynd.

Nú eru þeir saman komnir, talsmenn frelsisins til áratuga, talsmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks, og tala um að meiri hluti nefndarinnar sé að búa til væntingar, hvetja til offjárfestingar. Það eru talsmenn markaðarins sjálfs sem vilja með þessum hætti og talsmáta sínum vernda einkaaðila fyrir hugmyndum sjálfs sín vegna þess að það er í þeirra huga hlutverk löggjafans að hafa vit fyrir þeim sem vilja stunda þessar frjálsu handfæraveiðar, sem meiri hluti nefndarinnar kýs að kalla svo, en minni hlutinn vill kalla hið nýja banndagakerfi.

Það er hætt við því, segir minni hluti nefndarinnar, talsmenn frelsisins, að einstaklingar fari sér að voða í þessum tilraunaveiðum, að væntingarnar verði of miklar þannig að menn sjáist ekki fyrir í þeim fjárfestingum sem þeir ráðast í. Þannig er nú komið fyrir þeim, talsmönnum frelsisins, á Íslandi í dag. Þeir fjalla efnislega um frumvarpið í áliti sínu og gefa því ekki fallega einkunn. Þar er talað um að þær fjölmörgu breytingar sem meiri hlutinn gerði eftir heimsóknir umsagnaraðila og sendingar og umsagnir frá hagsmunaaðilum séu veigalitlar og ómarkvissar, umsagnarfrestur vegna málsins hafi verið hraklega stuttur, það sé allt í skötulíki, eins og segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„… og í rauninni stórfurðulegt að menn nálgist breytingar á fiskveiðistjórnarlögum með þessum hætti.“

Það sé flumbrugangur og ég veit ekki hvað og hvað.

Engu að síður, þegar vikið er að efnisatriðum frumvarpsins segir um 1. gr. að hún sé í sjálfu sér eðlileg og sjálfsögð og eingöngu til þess fallin að styrkja lagaframkvæmd sem tíðkast hafi um langt árabil. 2. gr. sé sömuleiðis til bóta að flestu leyti þannig að ekki er frumvarpið alslæmt að mati minni hlutans þó að hann kjósi á milli lína að setja fram gífuryrði um vinnubrögðin.

Meðferð þessa máls var þeim þingmanni sem stendur hér nokkuð lærdómsrík vegna þess að það er fyrsta málið sem ég sem þingmaður tek þátt í að fylgja inn í nefnd og fjalla um þar og koma svo aftur með það til 2. umr. Það er því ákveðið lærdómsferli. Mér þótti reyndar mikill tími fara í umsagnarferlið í störfum nefndarinnar. Það var að sjálfsögðu gaman að hitta allt það fólk sem kom, veitti umsögn og ræddi við nefndina en að mörgu leyti voru störf nefndarinnar eins og þau væru miðuð við starfshætti sem tíðkuðust áður en menn fundu upp tölvupóst eða fax vegna þess að oft komu umsagnaraðilar á fund nefndarinnar og sögðu frá efnisatriðum sem þegar voru öllum nefndarmönnum kunnug vegna þess að álitin höfðu þegar verið send. Mikið var um tvítekningar og þrítekningar í nefndinni þannig að að mínu mati fór mjög mikill tími í þetta ferli og hefði verið hægt að vinna málið miklu hraðar.

Það er dálítið merkilegt að verða vitni að því að minni hluti þingsins krefst þess í aðra röndina að mál séu unnin með ofurhraða þegar eitthvað annað sem hentar þeim er til umræðu en hreyfa sig síðan á hraða snigilsins þegar kemur að málum sem munu hugsanlega búa til væntingar og offjárfestingar þannig að menn fari sér að voða.

Eins og fram hefur komið í þessari umræðu hefur verið tekið tillit til margra þeirra sjónarmiða sem fram komu. Helstu sjónarmiðin sem komu fram á fundum nefndarinnar varðandi strandveiðihluta frumvarpsins snúa að úthlutun hluta af byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári til strandveiða og áhrif þess á byggðir landsins. Í því samhengi var fjallað um svæðaskiptingu þá sem lögð er til í frumvarpinu og taldi meiri hlutinn að svæðaskiptingin væri til þess gerð að koma til móts við byggðasjónarmið. Hann taldi í ljósi fram kominna athugasemda rétt að reynt yrði að koma enn frekar til móts við þau byggðarlög sem verða fyrir skerðingu á byggðakvóta. Meiri hlutinn lagði því til að ráðherra verði heimilað að setja í reglugerð ákvæði um frekari svæðaskiptingu með það að markmiði að koma til móts við þau sveitarfélög sem fá nú minni byggðakvóta í sinn hlut. Þá var það enn fremur mat meiri hluta nefndarinnar að gera nokkrar breytingar á þeim skilyrðum sem fram komu í frumvarpinu. Meiri hlutinn lagði til að banndögum yrði breytt í föstudag og laugardag í því skyni að bæta hráefnismeðferð. Þá var einnig lögð til sú breyting að felld yrðu út skilyrði um tvær rúllur á mann að hámarki og loks lagði nefndin til að leyfilegt hlutfall ufsaafla af þorskafla hverrar veiðiferðar yrði hækkað úr 15% í 30%.

Meginreglan sem verið er að styrkja er að hver Íslendingur geti róið til fiskjar og stundað þá atvinnustarfsemi sem allir Íslendingar hafa getað stundað um áratugi og aldir. Hér er verið að auka möguleikana á nýliðun í sjávarútvegi og jafna aðgang. Þetta er gert í tilraunaskyni. Þeir bátar sem fara í þessar veiðar verða að hafa haffærisskírteini, þeir verða að tengjast eftirlitskerfi Vaktstöðvar siglinga og verið er að opna fyrir handfæraveiðar allra þeirra báta sem uppfylla skilyrði sem gerð eru til fiskiskipa sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni. Ég tel það afar jákvætt. Auðvitað munu menn síðan meta árangurinn af þessu þegar rétt rúmlega tveir mánuðir eru liðnir. Að mínu mati á það örugglega eftir að koma í ljós að það er meira en að segja það að róa út og ná sér í 800 kíló af fiski. Það er ekki eitthvað sem menn hlaupa til bara einn, tveir og þrír og gera en aðalatriðið er að menn hafa núna heimild til þess að gera það.

Það vekur sérstaka athygli að hér er verið að gera breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem eru ákaflega ánægjulegar. Þá kemur í ljós að minni hluti nefndarinnar hefur mestar áhyggjur af þeim byggðum sem eru nánast í rúst vegna laganna um stjórn fiskveiða. (Gripið fram í.) Talað er um að þetta komi verst við þær byggðir þar sem íbúaþróun er neikvæð, þar sem fiskveiðiheimildum hefur fækkað, þar sem vinnslan hefur dregist saman. Nú hafa menn sem varið hafa lög um stjórn fiskveiða hvað harðast allt í einu gífurlegar áhyggjur af þeim byggðum sem orðið hafa hvað verst úti vegna þeirra laga.

Ég fagna þessu máli ákaft, ég tel það mjög mikilvægt og hlakka til að vinna það áfram í þinginu og í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.