137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:24]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú brestur mig minni til þess að rifja upp þá nafngift sem þeir fá sem svara spurningum með annarri spurningu og sneiða síðan fram hjá því að reyna að svara þeirri spurningu sem fyrir þá var lögð. Ég spurði hv. þingmann, alveg að gefnu tilefni, vegna þess (Gripið fram í.) að hann varði nokkrum hluta af ræðu sinni í að velta fyrir sér byggðaþætti fiskveiðistjórnarlaganna, hvaða hugmyndir hv. þingmaður og þá e.t.v. meiri hluti nefndarinnar hefði haft um það hvernig ætti að bregðast við með þeim hætti sem nefndin leggur fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að gert sé.

Það er vakin athygli á því að sú svæðaskipting sem boðuð er í frumvarpinu sé ekki til þess fallin að styrkja byggðirnar, það er í rauninni viðurkennt af meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, og þá hafði ég gert ráð fyrir því að nefndin hefði a.m.k. grófar hugmyndir um það fyrir sína parta hvernig þessum málum yrði breytt, hvort t.d. ætti að fækka þessum svæðum eða fjölga þeim, sem ég hefði talið að væri miklu rökréttara til að reyna að tryggja að sá afli sem veiddur er í þessu kerfi verði lagður upp þannig til vinnslu í veikustu byggðarlögunum.

Hv. þingmaður spurði mig margra spurninga (Gripið fram í.) og ég get sagt að það er auðvitað ýmislegt til sem við höfum gert í fiskveiðistjórnarkerfinu til að reyna að koma til móts við þarfir byggðanna. Þar ber kannski hæst innleiðingu þessa mikla kerfis, smábátakerfisins, sem sannarlega hefur orðið til þess að styrkja sjávarbyggðirnar í landinu.

Varðandi álit mannréttindanefndarinnar komst ekki hnífurinn á milli mín og Samfylkingarinnar í þeim efnum þegar við vorum að skrifa mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna svar. Við vorum sammála um hvernig ætti að vinna að því máli og um það var enginn ágreiningur milli flokkanna þannig að það svarar út af fyrir sig spurningu hv. þingmanns.

En ég ítreka mína spurningu: Hvernig sér meiri hluti nefndarinnar, svo ég fjalli bara um það frumvarp sem hér liggur fyrir, fyrir sér að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið bregðist við óskum nefndarinnar um (Forseti hringir.) að koma til móts við þarfir byggðanna í ljósi þeirra athugasemda sem hafa komið fram við þetta frumvarp?