137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum áhyggjur, þingmenn minni hlutans, af veikum byggðum varðandi þetta frumvarp. Við segjum það alveg kinnroðalaust að þetta frumvarp er til þess fallið í mjög mörgum tilfellum að veikja þær enn frekar og þetta vita hv. þingmenn meiri hlutans í þessu máli. Þetta vita hv. þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna, að það er ekkert annað í þessu en ávísun á það að þær byggðir sem veikast standa munu verða enn veikari á eftir og af því höfum við áhyggjur og segjum þar með að þetta frumvarp, eins og það er sett fram, mun ekki að ná markmiðum sínum. Það er algerlega kristaltært.

Ég sagði ekki, virðulegi forseti, að umsagnaraðilum sem leitað hefðu eftir því að fá að koma á fund nefndarinnar hefði verið neitað um það. En ég skýrði frá því að þau sjónarmið hefðu komið upp í málflutningi hv. þingmanna meiri hlutans í þessu máli innan nefndarinnar að það væri óþarfi að fá þetta fólk á fund nefndarinnar, það væri nær að láta senda okkur tölvupósta eða faxskeyti til að það gæti komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Það getur vel verið að hin nýja kynslóð þingmanna sem hér er haldi það eins og hv. þm. Róbert Marshall kom inn á í sinni ræðu, haldið það að slíkt komi í stað eðlilegra skoðanaskipta á nefndarfundum þar sem menn geta talað nokkuð hreint út um málin og svarað spurningum og tekið þátt í umræðum um málið. Það kemur ekkert í stað þess. Það var aftur, svo ég ítreki það, neitað, okkur var neitað um það að fá fulltrúa Landhelgisgæslunnar á fund nefndarinnar og það er alveg furðulegt að hv. nefndarmenn, Samfylkingar (Forseti hringir.) og Vinstri grænna, skuli geta gengið frá nefndaráliti (Forseti hringir.) í þessu máli án þess að hafa hlustað á rök þeirra gagnvart öryggismálum.