137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[18:02]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kveður við kunnugleg vísa þegar reynt er að spyrða Sjálfstæðisflokkinn við LÍÚ á sama tíma og við getum nánast sleppt þeim í þessari umræðu vegna þess að það eru byggðirnar út um allt land, það eru smábátasjómennirnir, það eru sjómannasamtökin, Farmanna- og fiskimannasambandið, það eru vélstjórarnir, það eru allir með athugasemdir við þetta. Þá kjósa fulltrúar vinstri stjórnarinnar að tala alltaf um LÍÚ í því sambandi til að draga þá aðila fram sem einhverja grýlu í þessu máli. En þeir kjósa að horfa fram hjá sannleikanum í málinu. Þeir kjósa það.

Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason segist ekki trúa því að sjálfstæðismenn séu tilbúnir að fara í vinnu við það að skoða ákveðna þætti fiskveiðistjórnarkerfisins og þeir séu búnir að vera við stjórn lengi og hafi ekki nýtt tímann til þess. Á því tímabili hafa ákveðnar breytingar verið gerðar á fiskveiðistjórnarkerfinu og í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn átti sæti í ásamt Samfylkingunni, sem tók við völdum vorið 2007, var ákvæði um að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið. Sú vinna var ekki farin af stað og það var ekki sjálfstæðismönnum að kenna. Þessi yfirlýsing hefur legið fyrir frá sjálfstæðismönnum í nokkurn tíma og ég frábið mér það að okkur sé lagt eitthvað í munn í þeim efnum heldur séu hlutirnir teknir eins og við segjum þá vegna þess að við meinum alveg það sem við segjum í þessum efnum og ég segi það fullum fetum að það eru ákveðnir vankantar á þessu fiskveiðistjórnarkerfi sem ber að sníða af. En sá árangur sem við höfum náð með fiskveiðistjórnarkerfi okkar er engin tilviljun og það er engin tilviljun að fjöldi annarra þjóða og þar með Evrópusambandið (Forseti hringir.) lítur til okkar og fiskveiðistjórnarkerfis okkar þegar kemur að endurskipulagningu þeirra fiskveiðistjórnarkerfis.