137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[18:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Við erum að ræða svokallað strandveiðifrumvarp en enn og aftur fer sjávarútvegsumræðan öll á hliðina. Menn tala alltaf um hlutina í öðru merki en þeir eru. Ég verð að segja að mér finnst mjög dapurlegt að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason skuli tala með þeim hætti sem hann gerir. Hann talar með lítilsvirðingu til heillar atvinnugreinar og ég ætla að fá að rifja upp að gefnu tilefni því mér finnst fólk tala af mikilli vankunnáttu um þetta.

Þetta kvótakerfi var sett á 1984 eftir mjög svarta skýrslu frá Hafrannsóknastofnun. Og hvað stóð í henni? Það stóð að ef menn mundu ekki grípa til róttækra aðgerða mundi verða endanlegt hrun sjávarútvegs á Íslandi. Við skulum halda því til haga. Hvað var gert? Jú, veiðiréttur þeirra manna sem störfuðu í greininni, sem var þá sóknarmarkskerfi, var skertur um 40%, þ.e. þeir sem veiddu 1000 tonn á ári máttu veiða 600 tonn. Þannig var þessi svokallaði gjafakvóti sem vinstri menn hafa oft notað í málflutningnum í sambandi við sjávarútveginn.

Svo finnst mér líka mjög dapurlegt þegar menn gera lítið úr þessu og kalla fram svona gamlar lummur eins og hv. þm. Jón Gunnarsson benti á, þegar talað er um einhverja í LÍÚ. Þetta er náttúrlega ekki mönnum sæmandi að tala með þessum hætti. Það er það ekki. Það er komið mikið meira en nóg af svona málflutningi. Það sem ég ætla að segja við ykkur er þetta, hv. þingmenn, að fólkið sem starfar í sjávarútvegi í dag, 95, 96, 97–99% þess gerir það af fullum heilindum til að halda uppi atvinnu í byggðinni sinni og engu öðru. Það er ekki að gera það af einhverjum öðrum hvötum eins og virðist oft liggja í málflutningi sumra manna. Það er bara þannig og það er mikilvægt að halda því til haga. Síðan geta menn gert lítið úr því og átt það bara við sjálfa sig. En mig langar að lesa úr umsögn sem kom frá bæjarstjórn Stykkishólms við þetta frumvarp. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Enn eitt áfallið yfirvofandi í Stykkishólmi? Stykkishólmsbær mótmælir harðlega þeim hugmyndum sem fram hafa komið samanber frétt á vef sjávarútvegsráðuneytisins nr. 15/2009 dags. 16.4.2009 varðandi upptöku strandveiða á kostnað úthlutunar byggðakvóta.

Byggðakvóta til Stykkishólmsbæjar hefur verið úthlutað á grundvelli hruns á hörpudiskstofni og aflabrests af þeim sökum og síðar banns við veiðum á hörpudisk. Það er ljóst að ef af þessum hugmyndum um strandveiði verður mun það hafa slæm áhrif á veiðar og vinnslu í Stykkishólmi og þar með alvarleg áhrif á atvinnulífið í bænum. Atvinnuleysi er nú með því lægsta í Stykkishólmi miðað við landið í heild, það er ekki síst fyrir öflugar fiskvinnslur sem verka fisk m.a. á grundvelli byggðakvóta. Það verður ekki séð hvernig auka eigi verðmætasköpun, efla atvinnulíf og auka drifkraftinn í bæjarfélaginu með upptöku strandveiða á kostnað byggðakvóta.

Útgerðir og vinnslur ásamt samfélaginu í Stykkishólmi tóku á sig mikil áföll við hrun hörpudiskstofnsins, en hafa byggt sig upp hægt og rólega m.a. með tilkomu byggðakvóta. Ofangreindar hugmyndir um strandveiðar ásamt svokallaðri fyrningu kvóta yrðu annað stórt reiðarslag fyrir útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki í Stykkishólmsbæ og þar af leiðandi atvinnulífið og samfélagið í heild sinni.“

Ég verð að segja það, frú forseti, að mér finnst hv. þingmenn gera lítið úr þessum athugasemdum. Og að hlusta síðan á hv. þm. Róbert Marshall koma hér upp kvartandi og kveinandi yfir því að hann þurfi loksins að tala við umbjóðendur sína og umsagnaraðila í þessu máli er afskaplega dapurlegt og segja síðan að menn gætu sent honum hugsanlega tölvupóst eða símbréf. Þetta er rosalega dapur málflutningur. Ég verð að segja það fyrir mína parta að mér finnst hann enn þá dapurlegri vegna þess að sömu aðilar, þessir ágætu menn tala um breytt vinnubrögð við mikla endurnýjun þingmanna. Það er enn þá dapurlegra í ljósi þess, enn þá dapurlegra.

Svo maður komi sér að aðalefni málsins og ég verð að segja það svo ég gleymi því ekki að ég vil hvetja hv. starfandi formann, Ólínu Þorvarðardóttur, til að fá bæði Landhelgisgæsluna og Slysavarnafélagið til að ræða við sig á milli 2. og 3. umr. vegna þess að það er alveg klárt, alveg sama hvort við erum sammála eða ósammála um hvort það er með aflamarkskerfi og sóknarmarkskerfi, að sóknarmarkskerfi er mikilsvert öryggismál sjómanna. Það eru engar deilur um það, alveg sama hvað okkur finnst um kerfið sem slíkt, vegna þess að það er hvati til þess að menn fari út við verri skilyrði, það segir sagan okkur. Það er mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir öryggismálum í þessu máli vegna þess að í fyrra var fyrsta árið, sennilega í sögu landsins, sem enginn sjómaður lést við skyldustörf. Það er því að þakka og menn geta lesið það með tilkomu Slysavarnaskóla sjómanna og því mikla átaki sem menn hafa gert í sambandi við öryggismál og öryggisþætti sjómanna. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga vegna þess að eins og ég segi, það eru engar deilur um það að sóknarmarkskerfi hefur neikvæð áhrif gagnvart þessu frekar en aflamarkskerfi, alveg sama hvað okkur finnst um kerfið sem slíkt.

En fagnaðarerindið sem hér er verið að boða, fagnaðarerindið eins og menn sögðu og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir sagði, mestu og bestu fréttir til byggðanna, ég er búinn að lesa úr því hér. En hvernig er svo niðurstaða málsins? Hún er algerlega óútfærð að því leyti til að menn taka 1.455 tonn út úr byggðakvótanum, þ.e. 55% af þorskaflamarkinu, og það er búið að benda þeim á það, m.a. með þessu bréfi frá Súðavík og fleiri stöðum, og hver eru svo viðbrögð nefndarinnar, þessara hugmyndaríku einstaklinga sem sitja þar? Hún skilur eftir blankó blað fyrir sjávarútvegsráðherra til að færa allt í betra horf vegna þess að nefndin er búin að gera sér grein fyrir því að þetta er ekki viðunandi og nefndin tekur undir álit þar sem við sögðum í 1. umr. að menn vöruðu við því að verið væri að færa frá veikustu byggðunum. Ég frábið mér það að menn geri mér einhverjar hugmyndir upp um að ég hafi ekki áhyggjur af því. Ég fordæmi það, á eftir. Menn koma upp og gera lítið úr því að mönnum sem hafa áhyggjur af að það skuli vera fært frá veikustu byggðunum og ég hef áhyggjur af því. Það hefur lengi verið reynt að ná einhverjum sáttum um þennan byggðakvóta og þar hefur gengið margt á.

Síðan ætla ég að rifja það upp að menn eru búnir að vera að gera það með þessum hætti, með þessum byggðakvóta, til að taka þau áföll sem byggðarlögin hafa orðið fyrir, það er búið að sníða af því marga vankanta í gegnum árin. Ekki er ég þó að halda því fram að þeir séu allir farnir, það má ekki skilja mig þannig. En það sem veldur mér mestum vonbrigðum er að ég benti á það við 1. umr. um þetta mál, að menn eru að átta sig á því að þetta mun ekki þýða mikla nýliðun. Það eru öfugmæli. Ég tek heils hugar undir það og mundi vilja vinna með mönnum að því ef þeir setja sér einhver raunhæf markmið gagnvart nýliðun. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú, sem hefur ekki komið fram hér, að við gengisfall krónunnar var stór hluti af smábátaflotanum seldur úr landi, til Færeyja, til Noregs og um allt þannig að það er búið að selja stóran hluta af bátunum úr landi og alla skástu bátana. Eftir sitja einhverjir og það er verið að draga fullt af bátum á flot og það er verið að draga litla báta sem hefur ekki verið róið lengi og þeir þurfa að fá sér haffæri og allt það en það sem er líka við þetta er að nýr handfærabátur í dag — fyrirtæki sem heitir Trefjar er að kynna bát í hringferð kringum landið. Þannig handfærabátur kostar 30 milljónir og það sjá það allir í hendi sér hvað mikil nýliðun er í kringum það. Hann kostar 30 millj. kr. Annað er ekki í boði eins og staðan er í dag nema þeir bátar sem hafa þegar margfaldast í verði. Bátar sem kosta milljón kostuðu kannski 7 millj. kr. þannig að það er nýliðun sem virkar ekki. Það sem mér finnst þó sárast er, og það er alveg sama hvað verið að deila um þetta blessaða aflamarkskerfi sem við erum að starfa eftir, hvar sem við stöndum í pólitík, þá höfum við flestöll verið sammála um að það sem hefur farið mest fyrir brjóstið á okkur öllum eru þeir aðilar sem hafa selt sig út úr greininni.

Ég benti á það við 1. umr. hvort nú ekki væri ráð af hálfu nefndarinnar og hálfu þingsins að segja sem svo: Þeir sem hafa selt sig út úr greininni á síðustu 4 eða 5 árum mundu þá ekki fá að fara inn, a.m.k. ekki á þessu eina ári. Það væru aðeins einhver smáskilaboð um það, og það mun koma í ljós og við vitum það fyrir, að fullt af þeim mönnum sem hafa selt sig út úr greininni á undanförnum 3–4 árum eiga stærstu og öflugustu bátana sem fara inn í þetta kerfi og það er dapurlegt. Það er staðreynd málsins.

Það er líka annað sem veldur mér miklu hugarangri og ég hef reyndar ekki fengið neina skýringu á og kalla eftir henni hér. Það er reglan um að veiða megi 800 kíló af þorski að hámarki í hverjum róðri, 12 tíma róðri. Ég benti á það við 1. umr., ásamt fleirum, að það má hafa 15% ufsa af þorskaflamarkinu sem menn veiða þann daginn. Núna er búið að hækka þetta upp í 30%, þ.e. að það má hafa 30% af ufsa miðað við þann þorskafla sem veiddur er þann daginn. Ég skil ekki af hverju er ekki hægt að hafa bara eina tölu, þ.e. að það megi veiða hvort sem það eru 800 kg, 500 kg, eitt tonn eða hvað sem það er að hámarki yfir daginn, burt séð frá hvaða tegund það er vegna þess að það er nánast eingöngu veiddur ufsi og þorskur á handfæri. Það er alveg ljóst að ef menn gera þetta með þessum hætti þá eru þeir að fara inn í ákveðið brottkast í kerfinu vegna þess að þegar menn fara út á sjó á mörgum stöðum eru sumir dagar þannig — ég er búinn að stunda handfæraveiðar í mörg ár — að einn daginn færðu mikið af ufsa og annan daginn færðu mikið af þorski. Einn daginn kemstu ekki frá landinu út af veðri og þá ertu að veiða það sem er 60–70% ufsi þó að allir vildu að sjálfsögðu hafa hvatann til að veiða sem mest af þorski vegna þess að hann er mikið verðmætari en ufsi. Þess vegna skil ég ekki af hverju má ekki hafa bara eina tölu. Burt séð frá því, hvað haldið þið að þetta mundi þýða gagnvart eftirlitinu? Þetta mundi einfalda eftirlitið alveg gríðarlega mikið vegna þess að við sjáum þetta fyrir okkur og það mun gerast að menn fara út á sjó og skrapa upp 240 kíló af ufsa sem þeir mega vera með gagnvart þorskinum, eða eitthvert ákveðið magn. Svo reikna þeir með að fá kannski eitthvað af þorski. Síðan verður það ekki þannig. Þá fer báturinn á landstím og til að verða ekki sviptur er ráðið að henda ufsanum í sjóinn. Þetta er alveg fyrirsjáanlegt. Þess vegna bið ég enn og aftur hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að skoða þetta ofan í kjölinn, vegna þess að það eru engin rök í málinu, akkúrat engin, vegna þess að 2.500 tonnin sem þú tekur af þorski inn í þetta kerfi tekur Jón Bjarnason upp úr vasanum eða úr hattinum. Þau voru hvergi, það er búið að úthluta aflamarki fyrir þetta kvótaár þannig að hann tekur það bara einhvers staðar af himnum ofan eins og sagt er stundum. Þau eru hvergi annars staðar. En 1.450 tonnin sem hann tekur út úr aflamarki byggðakvótans skerðir hann þar þannig að hann getur alveg eins tekið upp úr vinstri vasanum einhver ákveðin tonn af ufsa. Þetta væri margfalt skynsamlegra að öllu leyti og líka til þess að menn mundu ekki fara að kasta fiski í sjóinn.

Annað sem gerist líka við þetta, af því að það er á sumum stöðum í kringum landið þannig að menn veiða miklu meiri ufsa heldur en en kannski 30% og ég tala ekki um miðað við þorskaflamark sem þú veiðir þann daginn, þ.e. miðað við einhver 100 kg af þorski þá máttu vera með 30 kg af ufsa. Menn sjá þetta alveg fyrir sér. Þetta er alveg fyrir séð. Þess vegna ákalla ég ykkur enn og aftur og bið ykkur að breyta þessu vegna þess að þetta hefur engin áhrif og þetta mun laga þetta að stórum hluta.

Við 1. umr. varaði ég líka við því sem gerist og er að gerast núna í minni heimabyggð þar sem ég þekki mjög vel til þar sem eru bátar að róa á línu, þar sem tveir menn eru á sjó og 4–5 í landi en beitningafólkið er allt að fara heim. Það er að segja að þessir bátar munu fara í strandveiðikerfið og fara að fiska þar og beitningafólkið fara heim og það mun ekki þýða sjálfkrafa fjölgun starfa. Þó að ég sé ekki að gefa það í skyn að menn hafi haft það að markmiði að gera það með þeim hætti þá er það ekki sjálfgefið og þetta mun væntanlega, a.m.k. á minni heimaslóð, þýða fækkun á störfum vegna þess að þetta fólk verður sent heim og menn munu fara inn í þetta strandveiðikerfi og segja beitningafólkinu upp.

En menn kalla eftir afstöðu manna og ég skal tala mjög skýrt þar um. Ég er búinn að halda því fram í mörg ár að þetta sé ákveðin leið til að ná sátt í kerfinu og hleypa inn nýliðun, að fara út í einhvers konar handfæraveiðar. En það fer afskaplega mikið fyrir brjóstið á mér eins og hefur komið fram í máli mínu að við skulum vera að opna leið fyrir þá sem eru búnir að selja út úr kerfinu fleiri hundruð milljónir. Það fer afskaplega fyrir brjóstið á mér og þetta núna mun ekki þýða nýliðun. Það er, eins og hefur komið fram, ekki nógu vel ígrundað hvernig þetta er gert en ef menn mundu útfæra þetta — og ég ætla ekkert að gera lítið neitt úr því í þessu sjónarmiði þeirra sem leggja upp málið, þeir vilja að sjálfsögðu láta gott af sér leiða, ég held því alveg til haga, en ég bið ykkur heitast að taka til endurskoðunar í sambandi við aflamarkið sem ætti að vera á hverjum degi þannig að menn fari ekki að henda verðmætum, við megum ekki við því í dag, og eins ef það væri möguleiki að halda þeim fyrir utan þetta, a.m.k. fyrsta árið, sem eru búnir að selja frá sér heimildir í stórum stíl.