137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo knappur tími hér í andsvörum að mér gafst nú ekki ráðrúm til að koma inn á það atriði sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi varðandi þá sem hafa selt sig út úr greininni. Þetta var eitt af því sem hugleitt var og meira að segja leitað álits löglærðra manna, reyndar ekki formlegs en með símtölum. Og það eru lagalegir annmarkar á því að koma í veg fyrir það að menn sem hafa selt geti nýtt sér þennan möguleika með svipuðum rökum og þeim að það er erfitt að meina manni sem hefur selt hús að hefja húsbyggingar á ný. En þetta var eitt af þeim mórölsku atriðum sem komu til álita.

Ég vil líka halda því til haga, af því að mikið hefur verið gert úr því í þessari umræðu að umsagnaraðilar um þetta frumvarp hafi allir verið neikvæðir í garð þess. Það er ekki rétt. Það komu margar athugasemdir fram við frumvarpið og við þeim athugasemdum hefur vel flestum verið brugðist eins og kemur fram í nefndarálitinu. Fjölmargir þeirra sem umsagna var leitað hjá voru jákvæðir í garð grunnhugmyndarinnar í strandveiðihluta frumvarpsins og margir mjög jákvæðir gagnvart frístundaveiðihlutanum, svo því sé haldið til haga. En menn höfðu að sjálfsögðu athugasemdir eins og vera ber og er bara eðlilegt í lýðræðisþjóðfélagi.

Afstaða hefur verið tekin til, held ég allra, þeirra athugasemda sem fram komu.