137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[19:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í beinu framhaldi af ræðu hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur tel ég rétt að beina til hennar spurningu um það hvernig hún meti eða hvaða lærdóm hv. þingmaður telji að draga megi af því þegar horfið var frá t.d. dagakerfinu fyrir smábátana á sínum tíma. Hvers vegna var það gert. Sérstaklega væri áhugavert að heyra frá hv. þingmanni hvernig hv. þingmaður telur standa á því að bátum fjölgaði jafngríðarlega og raun varð á í því kerfi og jafnhratt eins og það gerðist, hvers vegna það varð.

Jafnframt væri líka áhugavert að heyra hvers vegna hv. þingmaður telur að menn hafi farið einmitt úr kerfum eins og skrapdagakerfinu sem byggði á því, ekki ósvipað því kerfi sem hér er lagt upp með, að það væri frjáls aðgangur fyrir alla sem vildu. Síðan yrði bara stjórnað með dagafjölda sem menn mættu nýta skipin. Hvað var það sem gerði það að verkum að skipum fjölgaði alveg gríðarlega? (Gripið fram í.) Ég hef lýst skoðun minni á því en ég heyrði það bara ekki hjá hv. þingmanni að í það minnsta væri dreginn lærdómur af þeirri reynslu vegna þess að það frumvarp sem hér er lagt upp með byggir einmitt á því að endurtaka nákvæmlega þá atburðarás, þá röð atburða sem leiddu til þess að menn lentu í þessum miklu vandræðum. Nýjasta dæmið er einmitt smábátakerfið sem við vorum með. Það er vegna þess að menn halda áfram að fjölga bátunum, halda áfram að auka sóknarþungann þar til enginn hagnaður er eftir og við stöndum uppi með vandamál. (Forseti hringir.)