137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[20:12]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Nú kannski sannast það að örlögin geta verið bæði glettin og grá. Nú hefur það gerst, mér vitanlega í fyrsta skipti, að Samfylkingin stendur heils hugar að baki búvörusamningum sem gerðir eru við bændur. Það sem meira er, það urðu örlög Samfylkingarinnar að mæla fyrir málinu þegar það kemur út úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis með þeim mikla sannfæringarkrafti sem ég fann að skein út úr orðum hv. varaformanns nefndarinnar og hefur örugglega komið glögglega fram þegar málin voru rædd í þingflokki Samfylkingarinnar. Að því loknu hefur væntanlega ýmist verið haft uppi húrrahróp eða lófatak yfir því að flokkurinn fái það ánægjulega hlutskipti að festa betur í sessi mjólkursamninginn og sauðfjársamninginn, og gera betur, festa hann í sessi til lengri tíma. Ég veit ekki hvort það er ástæða til að óska Samfylkingunni til hamingju með þetta hlutskipti. Mér finnst það að vísu hamingjusamlegt hlutskipti að fá það tækifæri að vera sérstakur flutningsmaður og ábyrgðarmaður málsins í þinginu en a.m.k. er ástæða til að fagna því að um þessi mál, landbúnaðarmálin, sé loksins að skapast sú mikla pólitíska samstaða sem stundum hefur skort á þegar verið er að ræða um landbúnaðarmál í þjóðfélaginu.

Þegar við ræðum um landbúnaðarmálin almennt í þinginu hefur mér þó fundist að um þau mál væri býsna góð samstaða en hins vegar þegar til stykkisins kemur hefur það ekki alltaf verið þannig. Áður en ég gekk til þessarar umræðu rifjaði ég aðeins upp með því að skoða meðferð mjólkursamningsins og sauðfjársamningsins á sínum tíma og hvaða stuðning þessir tveir samningar höfðu. Mjólkursamningurinn var samþykktur á Alþingi 28. maí 2004. Þá sátu einungis fjórir þingmenn Samfylkingarinnar hjá, aðrir greiddu samningnum atkvæði sitt. Nú veit ég ekki annað en að um þessi mál verði þverpólitísk samstaða, annað hefur a.m.k. ekki komið fram. Sauðfjársamningurinn er nýrri samningur og kannski er það einhver skýring, en Samfylkingin treysti sér ekki þá til að styðja hann. 15 þingmenn Samfylkingarinnar sem voru við afgreiðslu málsins sátu hjá, enginn greiddi atkvæði með samningnum. Nú hafa menn hins vegar að athuguðu máli tveimur árum seinna komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að halda sig við þennan samning sem gerður var á sínum tíma, 16.3.2007, og mjólkursamninginn, 28.5.2004, með þeim breytingum sem gerðar eru á samningnum með því frumvarpi sem hér liggur fyrir.

Það sem þetta frumvarp felur fyrst og fremst í sér er breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem er staðfesting á þeirri ákvörðun sem ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir tóku fyrir áramótin þegar ákveðið var að skerða verðbætur í búvörusamningnum eins og hafði verið ákveðið í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár. Eins og allir vita er þetta gert í ljósi ört versnandi efnahagsaðstæðna. Á sínum tíma var þessi ákvörðun mjög harðlega gagnrýnd, ekki síst af þáverandi stjórnarandstöðu, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Framsóknarflokknum, en einnig auðvitað af bændum sem bentu á að hér væri vegið að tekjuforsendum samningsins sem vissulega var verið að gera. Þess vegna er það að mínu mati fagnaðarefni að nú hefur náðst samkomulag í þessum efnum milli ríkisvaldsins og bænda um að hátta þessum málum með svipuðum hætti og ákveðið var við fjárlagaafgreiðsluna árið 2008, festa það í lög og um leið lengja þennan samning um tvö ár, með öðrum orðum að festa búvörusamningana betur í sessi en áður. Það er mikið fagnaðarefni.

Það er ljóst að við erum í þessum sporum í kjölfar þess að vegna bankahrunsins hrundu tekjur ríkisins. Þetta hrun bankakerfisins, efnahagshrunið í haust, olli því líka að ýmsir útgjaldaliðir fóru úr böndunum sem kallaði á það að ábyrgðarmenn ríkissjóðs urðu að fara í margvíslegar aðgerðir til að draga úr þeim halla sem var fyrirsjáanlegur. Það stefndi í rúmlega 200 milljarða halla og markmiðið var að koma þeim halla niður í 170 milljarða kr. Niðurstaðan varð sem betur fer heldur betri, 150 milljarðar kr. eða þar um bil í halla sem þó er ærinn eins og allir vita og allir eru sammála um að ekki sé við búandi til lengri tíma.

Við þessar aðstæður voru öll góð ráð dýr og engin ráð góð. Þær aðgerðir sem við urðum að grípa til voru allar í eðli sínu sársaukafullar og m.a. voru aðgerðir í þá veru að skerða vísitölubætur mjög víða í fjárlagafrumvarpinu, bæði vísitölubætur sem sneru að almannatryggingum og skyldum hlutum og einnig vísitölubætur sem hefðu orðið í búvörusamningnum ef honum hefði ekki verið breytt.

Ég ætla að halda því til haga að í fyrsta lagi var flutt fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2008 og þar voru auknar verðbæturnar sem gert hafði verið ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008. Þetta er eins og alltaf hefur verið gert varðandi framkvæmd búvörusamningsins, ákveðnar forsendur eru lagðar til grundvallar þegar samningurinn er lagður fram og þær forsendur eru verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins hverju sinni. Þegar málin eru síðan gerð upp þegar líður á árið og í ljós kemur, eins og kom fram á árinu 2008, að verðlagsforsendur þess frumvarps sem hafði orðið að fjárlögum hafa ekki staðist er einfaldlega bætt í og aukin fjárframlög til bænda í gegnum búvörusamningana sem því nemur þannig að búvörusamningarnir voru verðbættir að fullu á árinu 2008.

Fjárlagafrumvarpið 2009 var líka lagt fram með tilteknum verðlagsviðmiðum, þ.e. þar var gert ráð fyrir því að verðlag mundi hækka á milli ára að meðaltali um 5-6%. Eftir efnahagshrunið í október og þegar farið var að skoða forsendur fyrir næsta ár, núverandi yfirstandandi ár, kom í ljós að verðlagsforsendur voru að mati efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins þær að ætla mætti að verðlag mundi hækka að meðaltali milli ára um 14%. Þegar niðurstaðan varð þá sú að fara inn í vísitölubætur búvörusamninganna vorum við að tala um skerðingu á vísitölubótum sem nam 6–8 prósentustigum.

Auðvitað er ljóst að þetta var til þess fallið að rýra hag bænda. Hins vegar mun stærðargráðan af þessu fyrst og fremst ráðast af því hvernig okkur tekst til með efnahagsframvinduna. Ef það hefði tekist svo vel til að okkur hefði tekist að ná utan um verðlagshækkanirnar með markvissari hætti en menn spáðu í upphafi þessa árs hefði skerðingin orðið sem þessu nam minni en eins og lagt var af stað með málið í upphafi ársins var gert ráð fyrir því að þetta mundi skerða tekjur bænda um 800 millj. kr. Það skyldi enginn gera lítið úr því og það gerði hvorki ég sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á þessum tíma né ríkisstjórnin eða aðrir þeir sem að málinu komu.

Það er hins vegar ljóst mál að í þessum efnum veldur hver á heldur. Með markvissri hagstjórn hefði verið hægt að draga mjög mikið úr áhrifum þessara skerðinga á afkomu bænda. Lausatök ríkisstjórnarinnar við hagstjórnina, sem hafa birst okkur á hverjum degi, eru sjálfstæður skaðvaldur í þessum efnum. Við höfum dag eftir dag og viku eftir viku kallað eftir efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar en á þeim hefur lítið bólað, þær eru boðaðar í hverri viku en sífellt eru búnar til nýjar dagsetningar og nýjustu dagsetningarnar heyrðum við um síðustu helgi. Verðbólguþrýstingurinn hefur orðið miklu meiri en menn gerðu ráð fyrir, það staðfesti m.a. hæstv. fjármálaráðherra í ræðu hér í dag. Það var gert ráð fyrir því að verðbólgan væri á mun hraðari niðurleið, en gengishrunið sem hefur orðið frá því í mars hefur gert þær vonir að litlu sem engu. Auðvitað sjáum við að verðbólguþrýstingurinn er á niðurleið en það er hins vegar ljóst mál að ef ekki hefði orðið þetta gengishrun hefðum við séð miklu skarpari lækkun á verðbólgu en raun hefur orðið.

Ofan á þetta bætist síðan þetta svimandi íþyngjandi vaxtastig sem leggst ofan á minnkandi tekjur í landbúnaði og kemur niður á landbúnaðinum eins og svo mörgum öðrum atvinnugreinum. Auðvitað eru það sérstök vonbrigði fyrir landbúnaðinn sem er háður innlendri fjármögnun að vaxtastigið þumlungast ekki almennilega niður. Það er þess vegna ljóst að ríkisstjórnin sem nú situr ber mikla ábyrgð á versnandi kjörum bænda á þessu ári. Það er á valdi hennar að hafa áhrif á kjör bænda en hér blasir við aðgerðaleysiskostnaðurinn sem kemur niður á bændum eins og öðrum þjóðfélagsþegnum.

Virðulegi forseti. Ég gerði aðeins að umtalsefni, en þó í mjög stuttu máli, við 1. umr. þessa máls þá ótrúlegu kúvendingu sem hefur orðið hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og flokki hans. Ég verð að játa að ég kann ekki utan að ræður hæstv. ráðherra frá þeim tíma en mig rekur minni til helstu atriða ræðuflutnings hæstv. ráðherra og flokksmanna hans. Þegar þáverandi ríkisstjórn hafði komist að því að nauðsynlegt væri að skerða vísitölu búvörusamninga eins og ég gerði grein fyrir brugðust þessi stjórnmálaöfl mjög ókvæða við og töldu að það mætti ekki, og ætti ekki að skerða vísitöluna í búvörusamningunum. Þeir töldu ekki einasta að það væri lögfræðilega hæpið að gera þetta þannig, þeir töldu einfaldlega að það væru efnisleg rök gegn því að láta þessa skerðingu bitna á búvörusamningunum.

Hefði maður gengið svona bláeygur til þessarar umræðu síðar meir hefði maður getað ímyndað sér að flokkur vinstri grænna hefði látið það verða sitt fyrsta verk í ríkisstjórn að afturkalla þessa ákvörðun fyrrverandi ríkisstjórnar. Því var ekki alveg að heilsa. Þáverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og raunar fjármálaráðherra í einum og sama manninum, Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, tilkynnti bændum það ofur einfaldlega við setningu búnaðarþings þann 1. mars sl. að það væri ákveðið að sú skerðing sem ákveðin var í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár mundi standa og ekki bara það, hún yrði líka á næsta ári. Að því búnu boðaði hæstv. ráðherra bændur til sín til að ræða þessar málalyktir og hvernig mætti síðan vinna úr því.

Ég ítreka að í sjálfu sér er fagnaðarefni að það sé búið að ná samkomulagi í þessu máli. Það var mjög mikilvægt að reynt yrði að ná samstarfi við bændur um útfærslu á þeim óhjákvæmilegu skerðingum sem gera varð á búvörusamningunum og að því máli hafði verið unnið af minni hálfu strax frá því fyrir áramót. Ég kallaði á minn fund forustumenn bænda áður en ljóst var að niðurstaðan yrði þessi varðandi vísitöluskerðingarnar og gerði þeim grein fyrir því hvað væri í farvatninu, innti þá álits á því hvort þeir vildu að við reyndum að ná samkomulagi um það hvernig þessi mál yrðu útfærð. Niðurstaða bænda varð sú sem ég tel bæði eðlilega og skiljanlega við þessar aðstæður, þeir töldu ekki að þeir hefðu stöðu eða heimildir umbjóðenda sinna til að ganga til slíkra samningaviðræðna og þess vegna var það svo, sem ég taldi líka eðlilegt, að þáverandi stjórnvöld mundu axla ábyrgðina á þessari ákvörðun sem við og gerðum.

Hins vegar gengu þessar viðræður áfram. Þeim var haldið áfram eftir áramótin og þá urðu til þær hugmyndir sem núna hafa litið dagsins ljós í þessu frumvarpi, í fyrsta lagi það að una þeirri niðurstöðu að óhjákvæmilegt væri að fara inn í vísitölubæturnar á búvörusamningunum en reyna að skapa meiri vissu um þetta mál til lengri tíma, til tveggja ára í viðbót, og lengja gildistíma bæði mjólkursamningsins og sauðfjársamningsins sem því nam. Þetta er í rauninni kjarni frumvarpsins sem fyrir liggur hérna og ég fagna því að þessi niðurstaða er fengin og við í minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar lýsum yfir stuðningi við það að þetta mál fái brautargengi á Alþingi.

Ég get hins vegar ekki látið hjá líða að segja það að ég sakna þess engu að síður að hér líti dagsins ljós frekari áform hæstv. ríkisstjórnar um hvernig þessum málum sem snúa að hagsmunum bænda og kjörum bænda verði haldið áfram. Ég á t.d. við þá vinnu sem er nauðsynleg og er raunar hafin að einhverju leyti við kortlagningu á skuldastöðu bænda og úrræði við að koma til móts við þarfir landbúnaðarins. Við bankahrunið í byrjun október kallaði ég til mín forustumenn bænda til að fara yfir afleiðingarnar fyrir landbúnaðinn sérstaklega og hvernig við gætum brugðist hér við. Okkur var ljóst að ekki voru mörg þægileg ráð í þeim efnum en engu að síður varð að ráði að sameiginlega fóru fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og hagsmunasamtakanna á fund bankastofnana, sem þá höfðu nýlega verið reistar úr rústunum, til að fara yfir það með hvaða hætti bankastofnanirnar gætu séð að þær gætu tekið þátt í þessum vanda með landbúnaðinum.

Nú er skemmst frá því að segja að viðtökurnar voru mjög góðar. Bankastofnanirnar, fjármálastofnanirnar, gerðu sér grein fyrir þýðingu landbúnaðarins og þýðingu þess að landbúnaðarframleiðslan gæti gengið fyrir sig sem áfallaminnst. Þær frystingar sem óskað var eftir að yrðu framkvæmdar gagnvart landbúnaðinum gengu almennt eftir eftir því sem ég best hef upplýsingar um og hef raunar fengið staðfest frá fulltrúum Bændasamtakanna.

Nú er hins vegar komið að ákveðnum þáttaskilum. Þessu tímabili er lokið og við þurfum að sjá fram í tímann og þess vegna hefði ég talið eðlilegt við þessar aðstæður, í tengslum við þetta frumvarp, að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerði okkur betur grein fyrir stöðu þessa máls, hvernig að þessum málum yrði unnið. Við kölluðum raunar eftir þessum sjónarmiðum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hjá forustumönnum bænda og það er ljóst að af þeirra hálfu er mikil alvara í því að vinna að þessum málum, en það skiptir líka miklu máli að fyrir liggi stuðningur hins pólitíska valds við þetta mál. Ég tel eðlilegt að það sé gert.

Í annan stað hef ég líka velt fyrir mér í þessu sambandi, sem raunar var mjög til umræðu milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ráðuneytisins og þáverandi forustu Landssambands sauðfjárbænda, hvort það ætti að framlengja svokallaða útflutningsskyldu á dilkakjöti til að koma jafnvægi á kjötmarkaðinn eða a.m.k. hafa möguleika á að grípa inn í ef ástæða þætti til. Ég rakti með hvaða hætti hefði á sínum tíma verið komist að niðurstöðu varðandi útflutningsskylduna. Þá var það gert með því að bæta 300 millj. kr. inn í þennan samning. Nú er verið að skerða þennan samning, nú er staðan á kjötmarkaði erfið og tvísýn á margan hátt eins og margoft hefur komið fram og raunar má segja að ákveðin spegilmynd þess ástands komi fram í töflu sem fylgir með í þessu nefndaráliti sem Landssamband sauðfjárbænda aflaði og sendi okkur. Að mínu mati væri full ástæða til að taka þessi mál upp. Það getur vel verið að niðurstaðan verði að framkvæma þessa hluti með einhverjum öðrum hætti en gert hefur verið. Landssamband sauðfjárbænda vakti t.d. athygli á því að þetta mætti allt gera með því að sameinast um útflutningsmál á kjöti, taldi líka að það ætti að setja þá útflutningsskyldu á allt kjöt í landinu sem er miklu viðurhlutameiri ákvörðun. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra svaraði eins og véfréttin frá Delfí þegar ég spurði um þessi mál þegar við ræddum þau við 1. umr., sagði að það væri verið að ræða málin milli sín og forustumanna bænda án þess að gera nánari grein fyrir því hvað í því fólst. Þess vegna var það upplýsandi að fulltrúar Landssambands sauðfjárbænda greindu okkur frá þeim hugmyndum sem þar voru uppi, þ.e. annars vegar að búa til formlegt samstarf um útflutninginn, hvernig að því máli yrði staðið, og í öðru lagi að setja útflutningsskyldu á allt kjöt.

Það hefði verið fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þessara hugmynda, eða formanns nefndarinnar, en ég sé að bæði eru vant við látin og geta ekki hlýtt á ræðu mína — sem er auðvitað miður, þau hefðu gott af því — en sérstaklega að ræða þá hugmynd sem hefur komið fram hjá forustumönnum sauðfjárbænda um það að fara þessar leiðir í stað þess að framlengja útflutningsskylduna eins og hún hefur verið framkvæmd á undanförnum árum.

Í þriðja lagi er ljóst að mikil breyting hefur orðið á neyslumynstri bæði á kjöti og mjólkurafurðum vegna áhrifa af efnahagshruninu og vegna versnandi hags almennings í landinu. Þetta hefur komið niður á afkomu afurðastöðva landbúnaðarins og vandi þeirra er m.a. fólginn í því að þau geta illilega brugðist við vegna lagaumhverfis sem er mjög hamlandi. Það hefði þurft að knýja á um að þær lagabreytingar sem ég beitti mér á sínum tíma fyrir en náðu illu heilli ekki fram að ganga vegna þvermóðsku Samfylkingarinnar, um að leggja af svokallað verðmiðlunar- og verðjöfnunargjald, hefðu orðið samferða þessu í gegnum þingið til að opna þessa möguleika afurðastöðvanna á að verðleggja afurðir sínar með eðlilegri hætti. Það hefur sem sagt ekki verið gert.

Síðan hefði heldur ekki verið óskynsamlegt, eins og reyndar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvatti mjög til á aðventunni þegar þessi mál voru rædd, að nú yrði gerð sérstök könnun á því hver yrði líkleg verðþróun á afurðum landbúnaðarins og hvernig sú þróun hefði áhrif á hag bænda og afurðastöðva í ljósi þess að nú væri verið að skerða tekjumöguleika greinarinnar og menn yrðu væntanlega að reyna að freista þess að afla sér viðbótartekna í formi þess að velta verðlaginu yfir á neytendur sem eru kaupendur að afurðunum.

Ekkert af þessu hefur verið gert og þess vegna harma ég það að hæstv. ráðherra hefur ekki að mínu mati lagt fram nægilega fullbúið heildstætt mál í þessum efnum. Mér er ljóst að aðstæður eru erfiðar, ríkissjóður er ekki sérstaklega útbær á fé um þessar mundir, það er mér mætavel ljóst og ég geri ekki lítið úr því. Hins vegar eru til úrræði til að reyna að bregðast við vanda bænda með ýmsum hætti eins og ég hef gert grein fyrir, sem ekki kallar nauðsynlega á frekari útgjöld hins opinbera.

Virðulegi forseti. Ég hef í örstuttu máli farið yfir þau helstu atriði sem lúta að þessu frumvarpi. Ég ítreka það, eins og kom fram í ræðu minni við 1. umr., að við sjálfstæðismenn munum að sjálfsögðu standa að þessu frumvarpi. Ég tel að þetta sé, eins og ég orðaði það, iðrunar- og yfirbótafrumvarp hæstv. ráðherra þar sem hann dregur í rauninni í land allar sínar stóryrtu yfirlýsingar frá því fyrir jólin. Það er út af fyrir sig karlmannlega gert að viðurkenna að hafa haft á röngu að standa.

Við erum í miklum nauðum þegar þessi mál eru til umfjöllunar, við erum að fjalla um málið í skugga mikilla erfiðleika sem hafa kallað erfiðleika yfir bændur og ríkissjóð. Sameiginlega er verið að taka á þeim málum með samningnum sem innsiglaður er í þessu frumvarpi. Bændur hafa sjálfir þegar samþykkt þessa samninga. Þeir gera sér grein fyrir stöðu málsins, þeim er vandinn vel ljós. Bændur hafa áður sýnt að þeir eru manna reiðubúnastir til að taka sameiginlega á með þjóðinni þegar erfiðleikar steðja að. Skemmst er að minnast þjóðarsáttarinnar þar sem bændur komu að með mjög myndarlegum hætti á sínum tíma. Það má líka rifja upp að árið 2007 afsöluðu bændur sér einhliða rétti til hækkana á afurðum sínum sem hefði annars verið lögbundinn. Á því ári voru tollar líka lækkaðir einhliða um 40% á samkeppnisvörum íslensks landbúnaðar, sem hefur haft áhrif á samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar og möguleika bænda til tekjuöflunar innan lands.

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að hafa öllu fleiri orð um þetta mál. Það er að mínu mati jákvætt í þeim skilningi að þarna er verið að ná þó samkomulagi í mjög erfiðu máli sem kostaði deilur og kostaði bændur fjármuni. Í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru er óhjákvæmilegt að styðja það að þessi niðurstaða náist og hún er í samræmi við það upplegg sem ég lagði upp með bændum í upphafi þessa árs.