137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[20:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Þar er helst að nefna, eins og fram hefur komið í framsögu, að við erum fyrst og fremst að tala um samningsbundna eftirgjöf af hálfu mjólkurframleiðenda og sauðfjárbænda af fullum fjárframlögum í minnsta lagi í tvö til þrjú ár auk yfirstandandi árs en í staðinn fá þessi samtök bænda framlengingu á samningnum um tvö til tvö og hálft ár. Að auki fylgir í þessu frumvarpi minni háttar breyting á heimild til greiðslu álags vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt til hagsbóta fyrir kaupendur fjárskiptafjár sem lenda í riðuniðurskurði.

Um aðdraganda þessa máls væri svo sem hægt að hafa ýmis orð. Við 1. umr. kom fram í máli hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og einnig hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að þeir hafa skipst á stólum í þessu máli í vetur. Af hálfu okkar framsóknarmanna og af minni hálfu geri ég svo sem ekki greinarmun á því hvort um sé að ræða einhliða ákvörðun sem gerð var í desember 2008 af ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eða þá þennan tvíhliða samning sem gerður er undir mjög sérkennilegum aðstæðum, eins og kom fram í ágætri framsögu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar á búnaðarþingi 1. mars þar sem þáverandi hæstv. landbúnaðarráðherra, sem þá var jafnframt fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, tilkynnti bændum að niðurskurðurinn væri orðinn. Í ljósi þess hafa menn gengið til þessa tvíhliða samnings hjá ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Það er aftur á móti nokkuð ánægjulegt fyrir okkur framsóknarmenn sem við höfðum staðið fyrir því að þessum samningi yrði komið á við bændur fyrr á árum að sjá nú alla flokka tilbúna til að standa að honum, ekki síst Samfylkingu og Vinstri græna og að þeir skuli þá standa að því að festa í sessi þetta starfsumhverfi landbúnaðarins. Samningurinn sem um er fjallað byggir sem sagt á eftirgjöf bænda eins og ég kom inn á, þ.e. sauðfjárbænda og kúabænda auk Bændasamtakanna sem skrifa upp á samninginn. Það er að sjálfsögðu virðingarvert af bændum að leggja sitt af mörkum og taka á sig þær byrðar sem þeir eru tilbúnir til til þess að koma þjóðarbúinu í gegnum þau boðaföll sem nú ganga yfir í ríkisfjármálum og öðru slíku. Það er hins vegar ekki virðingarvert af ríkisstjórninni og allra síst af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem í aðdraganda þessa máls hefur gagnrýnt það allt mjög harðlega. Það er sérkennilegt að í hverju málinu á fætur öðru skuli þeir vera tilbúnir til að venda kvæði sínu í kross og tala í norður þegar þeir töluðu áður í suður.

Það er reyndar einnig ámælisvert af ríkisvaldinu að í þennan samning skuli vanta uppáskrift og samning við garðyrkjubændur. Þrátt fyrir yfirlýstan vilja garðyrkjubænda til að standa að sambærilegum samningi var ríkisvaldið ekki tilbúið til að ganga frá öruggum samningi um niðurgreiðslu á flutningskostnaði raforku til þeirra sem nýta raforku til lýsingar og framleiðslu á heilnæmum afurðum. Það er klárlega mjög ámælisvert af ríkinu og ég sakna þess að við þessa umræðu og síðan þetta var kynnt í þinginu skuli ekki vera búið að tilkynna frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða í nefndinni til hvaða ráða ríkisvaldið hyggist grípa til að tryggja rekstrargrundvöll garðyrkjunnar í landinu.

Þessi samningur hefur sannarlega mikil áhrif og í því ljósi er hægt að nefna að á yfirstandandi ári, eins og kom fram í framsögu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, erum við að tala um 800 millj. kr. og síðan yrði bundin næstu 2–3 árin (Forseti hringir.) föst hækkun sem þýðir að bændur taka algjörlega á sig alla þá áhættu sem fylgir vísitöluhækkunum og verðbólguhækkunum í landinu. (Gripið fram í.) Bændur standa sig sannarlega vel og það væri óskandi að ríkisstjórnin stæði sig jafn vel og bændur hafa gert og væri tilbúin að axla sambærilegar skyldur.

Í sambandi við það hvaða áhrif þessi samningur hefur gildir hann ekki einasta þetta ár 2009 heldur líka 2010, 2011 og 2012 en í tilfelli sauðfjárbænda fá þeir framlengingu á núverandi samningi til ársloka 2015 og kúabændur reyndar um 28 mánuði þar sem þeirra samningi lýkur í ágústlok en mun lengjast til ársloka 2014. Samningurinn hefur nú þegar verið lagður fyrir bændur og verið kosið um hann þar og í þokkalegri þátttöku í atkvæðagreiðslunni samþykktu samninginn 80%–83% bænda sem þátt tóku í atkvæðagreiðslunni.

Það er hins vegar mjög þýðingarmikið og nauðsynlegt að minnast á það sem er í viðauka við þessa samninga tvo, sauðfjárbændur og mjólkurframleiðendur komu inn í samninginn, en þar er um að ræða ákvæði um að beita sér fyrir könnun á skuldastöðu annars vegar sauðfjárbænda og hins vegar mjólkurframleiðenda í ljósi þeirra fjármálaþrenginga sem þjóðin býr nú við og jafnframt að leita lausna til að bæta stöðu greinanna. Það er því áhyggjuefni að samhliða þessu skuli ekki liggja neitt fyrir um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að efna þann hluta samningsins þegar við erum að samþykkja eða ræða þennan samning hér.

Áhættan sem er fólgin í þessum samningi byggist á því að ekki náist að hemja verðbólgu, að efnahagsástandið verði á sama róli og við höfum horft upp á síðustu mánuðina. Þessi áhætta er sem sagt einhliða tekin af bændum og Bændasamtökunum og gæti orðið þeim afar dýrkeypt ef við náum ekki tökum á ríkisfjármálunum og efnahagsástandinu.

Ég ræddi við 1. umr. mikilvægi þess að í staðinn fyrir að ræða um þessa skerðingu á kjörum bænda ættum við í raun og veru að ræða efnahagsráðstafanir. Ég sakna þess að hafa ekki enn séð þær teknar fyrir, hvorki hér í þinginu né hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég ítreka það sem kom fram við 1. umr., við framsóknarmenn munum styðja þetta frumvarp, frú forseti, enda teljum við að við séum í raun og veru að efna þann hlut ríkisins sem sé sjálfsagður í ljósi þess að bændur eru búnir að samþykkja þetta með kosningum sínum.

Í lokin, frú forseti, ætla ég að koma því á framfæri að ég er meðflutningsmaður meiri hlutans að þessu máli. Það er ekki síst áhugavert eða skemmtilegt að vera samstiga Samfylkingunni og Vinstri grænum í að festa í sessi landbúnaðarsamning sem við framsóknarmenn komum á. Við höfum verið gríðarlega stoltir af að hafa komið rekstrargrundvelli landbúnaðarins á það stig sem hann þó hefur verið síðustu árin. Ég vona og trúi því og treysti að við munum ná þeim tökum á efnahagsmálunum að það versta sem maður gæti óttast í þessum samningi, verðbólga upp á 10–20% og gjaldþrot greinarinnar, verði ekki að veruleika heldur að við munum ná tökum á þessu þannig að þetta verði ekki of þungur baggi á landbúnaðinum.

Ég ítreka, frú forseti, í lokin svo það verði örugglega til bókar fært að það er áhugavert fyrir okkur framsóknarmenn að taka þátt í því með Samfylkingunni að tryggja þennan samning í sessi.