137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[20:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er komið að því að greiða atkvæði um efnisatriði þess frumvarps sem við höfum verið að ræða mestan hluta dagsins. Sannarlega er það þannig að ýmislegt í þessu frumvarpi er til bóta sem má svo sem lýsa stuðningi við en annað er lakara. Það sem er verst í þessum efnum er það að hinn svokallaði strandveiðihluti frumvarpsins er algjörlega vanbúinn eins og hefur glögglega komið fram í þessum umræðum.

Þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar leggur til eru lítils háttar viðleitni í rétta átt en nægja engan veginn til þess að gera þetta mál þannig úr garði að hægt sé að styðja það. Þetta eru í sjálfu sér jákvæðar breytingartillögur eins langt og þær ná og út af fyrir sig hægt að fagna því en hins vegar er það þannig að málið er í fullkominni óvissu, það er óljóst og það mun ekki ná þeim markmiðum sem að er stefnt, hvorki með nýliðun eða sem stuðningur við byggðirnar, þvert á móti, og þess vegna mun það koma fram í afstöðu okkar sjálfstæðismanna í þessari atkvæðagreiðslu.