137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er dálítið merkileg yfirlýsing hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur vegna þess að það virðist ekki skipta máli hvernig samningurinn hefði litið út. Auðvitað skiptir það miklu máli og auðvitað átti að semja um hámark af þjóðarframleiðslu eða útflutningi til að þjóðin lendi ekki á vonarvöl. Það var ekki gert. Ef samið hefði verið um ákveðið hámark hefðu allar þjóðirnar þrjár haft af því hagsmuni. Það er ekki hagur Breta og Hollendinga að Íslendingar lendi í verulega miklum vandræðum því að þá greiðum við ekki neitt.

Það er miklu skynsamlegra fyrir þá að setja á þetta hámark, segjum 1% af þjóðarframleiðslunni í 10 ár, eins og ég lagði til strax í haust, því að það hefði tryggt gott lánshæfismat. Það skiptir nefnilega máli, frú forseti, hvernig þessi samningur var gerður og sá samningur sem við stöndum frammi fyrir núna er í rauninni ekki með neinu hámarki. Hann gæti farið upp í 900 milljarða ef allt fer á versta veg og það er eitthvað sem þjóðin getur alls ekki staðið undir. Þá mun hver einasti fiskur sem við veiðum næstu 8 ár fara til að greiða af þessu láni. Það gengur ekki upp, það er ekki gott fyrir Hollendinga og það er ekki gott fyrir Breta og samninganefndin átti að segja þeim það.