137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er rétt að menn vissu af því að Alþingi hefði falið ríkisstjórninni að leita samninga í þessu máli en þar var sérstaklega tekið fram að taka þyrfti tillit til erfiðra aðstæðna Íslendinga sem svo ekki hefur verið gert núna af hálfu Breta og Hollendinga. Vextirnir og fyrirkomulagið á þessu öllu saman og að áhættan skuli öll liggja hjá Íslendingum eru því eitthvað sem menn sáu ekki fyrir enda er ég hræddur um að þá hefðu vinstri græn látið heyra í sér enn þá meira en þau gerðu á sínum tíma. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi reyndar strax þá að minnisblaðið sem nú er svo mikið vísað til skipti engu máli. Hann hefur þá væntanlega skipt um skoðun núna, telur að það hafi skipt öllu og að lánshæfismatsfyrirtækin hafi getað vitað það þá en þau gátu ekki vitað á hvaða kjörum samningurinn er. Þau gátu ekki vitað að ekkert tillit yrði tekið til aðstæðna Íslendinga eins og lagt var upp með. Þar skilur milli feigs og ófeigs. Að halda því fram að fyrirtækin hafi verið búin að taka það með í reikninginn stenst enga skoðun.

Hitt er svo annað mál og ekki síður alvarlegt að það er ekki rétt að þessi samningur minnki óvissu. Þetta er einhver mest óvissuskapandi samningur sem um getur í Íslandssögunni, líklega sá langmest óvissuskapandi því að ekki nóg er með að hlutir á borð við þróun gengis eða efnahagsþróun í heiminum skipti alveg gríðarlegu máli þarna heldur er slík óvissa um eignir bankans sem standa þarna undir að það getur gerst að dag frá degi sveiflist mat manna á hví hvað muni innheimtast um tugi milljarða kr. Á næstu 15 árum getum við því þurft að fylgjast með því dag frá degi hver áætlunin er, hvort ríkið muni þurfa að borga 300 milljarða, 400 milljarða eða 500 milljarða. Svona verður óvissan næstu 15 árin. Samningurinn tryggir stöðuga óvissu næstu 15–20 árin.