137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Spurt er um af hverju fundarfall hafi orðið í morgun og hvenær fulltrúar frá sveitarfélögunum komi á fund hv. menntamálanefndar. Fundarfallið í morgun snýst einfaldlega um skipulag. Fulltrúar sem áttu að koma í heimsókn til okkar gátu ekki komið. Og eftir að hafa skoðað málið með varaformanni og starfsmanni nefndarinnar ákváðum við að snúa skipulaginu við. Það hefur ekkert að gera með mikilvægi málaflokksins og það skal enginn efast um mikilvægi þessa málaflokks.

Fulltrúar frá sveitarfélögum bæði á lagasviði og skólamálanefnd, fulltrúar frá Kennarasambandinu og frá Heimili og skóla hitta nefndina sennilega 30. júní. Það hefur verið erfitt að finna tíma til að koma þessu fólki saman en unnið er að því. Og bæði málefni grunnskólans og málefni framhaldsskólans og auk þess þau tvö frumvörp sem liggja fyrir nefndinni verða tekin fyrir á næsta þriðjudegi á nefndadögum og síðan 30. júní.