137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

nýting orkulinda og uppbygging stóriðju.

[14:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég bið um utandagskrárumræðu er mjög einföld og hún sú að nú sem aldrei fyrr þurfum við Íslendingar að nýta þau tækifæri sem landið hefur upp á að bjóða. Við höfum sem betur fer gert það fram til þessa sem hefur gert það að verkum að við höfum verið í fremstu röð þjóða og við viljum vera það áfram. Ég þarf ekki að rekja forsögu þess máls hver staðan er hjá okkur Íslendingum í dag en sú staða kallar á það að við nýtum tækifærin enn betur en við höfum áður gert.

Eitt af því sem við Íslendingar eigum er umhverfisvæn orka. Gert er ráð fyrir því, virðulegur forseti, ef maður skoðar grunnspá fjármálaráðuneytisins, að farið verði í byggingu á álveri í Helguvík og stækkun álvers í Straumsvík með tilheyrandi orkuöflunarframkvæmdum. Og ekki aðeins það, virðulegur forseti, heldur segir í sömu spá, með leyfi forseta:

„Út frá efnahagslegum forsendum er tímasetning framkvæmdanna óvenju góð. Ljóst er að atvinnuleysi verður mikið hér á landi á næstu árum og þau störf sem skapast við framkvæmdirnar eru því hrein viðbót við þau störf sem fyrir eru. Má gera ráð fyrir að allt upp undir 1.000 viðbótarársverk skapist við framkvæmdirnar á ári og eru þá ekki meðtalin þau fjölmörgu óbeinu störf sem myndast við framkvæmdir sem þessar. Í árferði þar sem atvinnuleysi er lítið ryðja slíkar framkvæmdir jafnan margvíslegum öðrum verkefnum til hliðar og störfin sem skapast eru því ekki hrein viðbót eins og nú mun verða. Þá mun innstreymi erlends fjármagns vegna framkvæmdanna hafa jákvæð áhrif á gengi íslensku krónunnar til styrkingar en gengi krónunnar er spáð veiku á næstu árum.“

Virðulegur forseti. Með öðrum orðum, þá gæti tímasetningin ekki verið betri, hún gæti ekki verið betri út frá efnahagslegum forsendum. Að auki, virðulegur forseti, eru umhverfisrökin mjög góð. Við erum með algjöra sérstöðu, Íslendingar, þegar kemur að orkuöflun og um 90% af orkuöflun okkar er umhverfisvæn. Ef aðrar þjóðir væru í sömu sporum og við, hefðu farið íslensku leiðina, væru engin loftslagsvandamál, þá væru menn ekki að takast á við þau mál á alþjóðavettvangi.

Við höfum því algjöra sérstöðu hvað þetta varðar. Við getum bæði nýtt orkuna og sömuleiðis höfum við þekkinguna, svokallaða hátækni til að vinna úr þessum málum, sem reyndar er orðin eftirsótt á alþjóðavettvangi. Með nokkurri einföldun má segja að meðan aðrar þjóðir nýta sér olíu, kol og gas nýtum við Íslendingar umhverfisvæna orkugjafa.

Það var því mjög ánægjulegt, virðulegi forseti, að hlusta á umræður sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hóf í síðustu viku um atvinnumál en þar kom hæstv. iðnaðarráðherra og upplýsti þing og þjóð um að aldrei hafi verið jafnmikil traffík af aðilum sem vildu nýta Ísland sem fjárfestingarkost fyrir orkufrekan iðnað. Ekki aðeins nefndi hæstv. ráðherra þetta heldur tilgreindi hún hin ýmsu verkefni sem væru í startholunum eða væru á leiðinni að verða að veruleika eða gætu mögulega orðið að veruleika.

Þess vegna, virðulegi forseti, vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra, því að um þessi mál verður að vera samstaða til að þau komist í framkvæmd og mikilvægt að þau tefjist ekki, þriggja spurninga:

1. Hvaða áhrif hefur stefna ríkisstjórnarinnar um losun gróðurhúsalofttegunda á uppbyggingaráform orkufreks iðnaðar?

2. Er það stefna ríkisstjórnarinnar að fara í uppbyggingu á orkufrekum iðnaði?

3. Hvar á sækja orku í álver í Helguvík, álver á Bakka, netþjónabú Verne Holdings, Reykjanesbæ, sólarkísilverksmiðju í Helguvík, hreinkísilverksmiðju Strokk-Energy og stórt netþjónabú Greenstone?

Ástæðan fyrir því að ég tilgreini þetta sérstaklega er vegna þess að hæstv. iðnaðarráðherra tilgreindi þetta í ræðu sinni fyrir nokkrum dögum.

Virðulegur forseti. Það er afskaplega mikilvægt að menn átti sig á því að ef við nýtum ekki þessi tækifæri þýðir það aukinn niðurskurð, (Forseti hringir.) það þýðir hærri skatta og versnandi lífskjör.