137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

nýting orkulinda og uppbygging stóriðju.

[14:22]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin við fyrirspurnum hv. málshefjanda. Í því efnahagsástandi sem við búum við, vonandi bara um hríð, á Íslandi þarf að huga mjög vel að atvinnuuppbyggingu og fjölgun starfa. Í því ljósi skiptir mjög miklu að við nýtum vel þær auðlindir sem við eigum með sjálfbærum hætti og að við stefnum að því að búa til sem flest störf fyrir þau megavött sem fást úr virkjunum, hvort sem það er úr vatnsafli eða jarðvarma. Fleiri störf fyrir megavattið, mætti kalla það. Þannig hefur það ekki alltaf verið hér á landi. Og vegna þess að búið er að telja upp þá kosti sem í boði eru og eru á borðum orkufyrirtækjanna, stjórnvalda, sveitarstjórna og annarra, er ekki einu sinni búið að afla allrar orkunnar sem þarf til Helguvíkur. Samt er búið að ráðstafa öllu því sem Orkuveita Reykjavíkur telur sig hafa til ráðstöfunar, hvort heldur er á Hellisheiði eða á Reykjanesinu, ef hún fer þangað. Það þýðir, frú forseti, að þeir aðrir sem hingað vilja koma til að byggja upp ný fyrirtæki, hvort sem það er sólarkísill, gagnaver eða eitthvað annað, komast ekki einu sinni inn í röðina. Stefnan hefur verið sú að ekki er einu sinni hægt að fá hingað fjárfesta til að búa til fleiri störf (Gripið fram í.) við þær aðstæður sem við búum nú. Þess vegna verður að horfa á það í heild sinni hver orkustefnan er, í hvað orkan fer, á hvaða atvinnustefnu við byggjum og hvernig við byggjum hana til lengri framtíðar. Hún þarf að vera fjölbreytt, eins og hæstv. umhverfisráðherra sagði, en hana þarf líka að hugsa lengra en sex mánuði fram í tímann.