137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

nýting orkulinda og uppbygging stóriðju.

[14:25]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Frú forseti. Hér á landi eru þúsundir atvinnulausra. Fjölskyldur flytja úr landi daglega. Þetta er fólk með hugmyndir, hæfileika, menntun, vonir og þrár, fólk með reynslu, bakgrunn og þekkingu. Hvað ef við settum allt það fjármagn sem suma dreymir um að verja í virkjunarframkvæmdir, til að virkja þetta fólk?

Störf í áliðnaði eru feikilega dýr. Talið er að hvert starf í álveri á Reyðarfirði hafi kostað 230 millj. Ef við veldum fólk af handahófi af atvinnuleysisskrá, þótt auðvitað séu til miklu betri aðferðir, og fengjum þeim 230 millj. eða kannski bara 100 millj., jafnvel aðeins 5 millj., haldið þið ekki að viðkomandi gætu búið til einhver störf sem væru þjóðhagslega hagkvæm? (TÞH: Þú þarft erlenda fjárfestingu til þess.) Það þyrfti að mínu mati verulega einbeittan vilja til að klúðra því.

Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að huga að heilbrigði lands og þjóðar við mótun atvinnustefnu til framtíðar. Hér býr gáfuð, vel menntuð og dugleg þjóð. Hér eru ótal tækifæri. Þau felast ekki endilega í áliðnaði og sennilega í einhverju allt öðru. Það á ekki að þurfa að vera hlutverk ríkisins að skapa þegnunum störf. Hlutverk ríkisins er að skapa lífvænlegt umhverfi fyrir atvinnulífið.

Við sem erum foreldrar vitum að það þarf að rata hinn gullna meðalveg í uppeldinu. Ef unglingur er á heimilinu sem hefur það gott í kjallaranum hjá mömmu mun hann aldrei flytja að heiman. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að stjórnmálamenn séu ekki sýknt og heilagt að lofa stórframkvæmdum sem eiga að bjarga heilu byggðarlögunum því að þá er eins og hægfara lömum leggist yfir svæðið og allt frumkvæði fólksins hverfur.