137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

nýting orkulinda og uppbygging stóriðju.

[14:39]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka enn fyrir ágæta umræðu. Fyrir liggur tvennt: Í fyrsta lagi að þingmenn stjórnarandstöðunnar eru sammála því að það beri að styrkja og efla umhverfisráðuneytið og ber að þakka það sérstaklega. Sú ágæta hugmynd sem hér kom fram um að búa til sérstakt umhverfis- og auðlindaráðuneyti er raunar í samstarfsyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar þannig að ég vænti stuðnings þingmanna stjórnarandstöðunnar við það. Ég heyri jafnframt að málshefjandi vill vekja máls á því að umhverfisráðuneytið hafi fyrsta og síðasta orðið að því er varðar virkjana- og stóriðjuframkvæmdir. Það kann vel að vera að betur færi á því að svo væri, en nákvæmlega það sem hér var fjallað um að því er varðar Helguvík er ekki á borði umhverfisráðherra eins og málin standa núna.

Hins vegar gæti ég haldið um það langar ræður að 625 megavött fyrir 360 þús. tonna álver eru ekki til á þessu svæði. Á meðan erum við að reyna að ræða við aðila af ýmsu tagi, aðila sem banka á dyrnar hjá okkur, aðila sem vilja græn störf og græna uppbyggingu og við getum ekki lofað þeim orku af því að meira og minna öll orka er lokuð inni í álversframkvæmdum, því miður. Það er stóralvarlegt mál.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur um mikilvægi þess að heilbrigði lands og þjóðar sé haft að leiðarljósi. Við eigum að fara óhrædd inn í þá framtíð. Við eigum að fara óhrædd vonandi inn í langa framtíð vegna þess að almenningur gerir kröfu um aðra pólitík en þá sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson stendur hér fyrir. Umhverfismálin þola ekki skotgrafapólitík, umhverfismálin eru hafin yfir það. (Gripið fram í.) Umhverfismálin þurfa að horfa til lengri framtíðar, almenningur gerir kröfu til þess að við horfum til lengri framtíðar, slíðrum sverðin og stöndum saman um það að fara með Ísland inn í græna framtíð.