137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

íslenska undanþáguákvæðið.

41. mál
[14:47]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Þarna á fyrirspyrjandi við það sem á lagamáli loftslagssamningsins kallast ákvörðun 14/CP.7, sem hér á landi er oftast kölluð „íslenska ákvæðið“ og fyrirspyrjandi bendir réttilega á að er í eðli sínu undanþáguákvæði. Það hafa verið skiptar skoðanir á þessu ákvæði og núverandi umhverfisráðherra telur að Ísland eigi ekki að óska eftir undanþágum frá almennum reglum loftslagssamningsins. Íslensk stjórnvöld vinna að því að reyna að losna undan þessu ákvæði með væntanlegu Kaupmannahafnarsamkomulagi en þó á ábyrgan hátt þannig að heimildir sem íslensk fyrirtæki hafa fengið fyrir losun til þessa hverfi ekki skyndilega svo gjörbreyting verði á rekstrargrundvelli þeirra.

Til að svara spurningu hv. þingmanns eins vel og hægt er vil ég aðeins gera grein fyrir stöðunni í alþjóðlegum samningaviðræðum fyrir Kaupmannahafnarfundinn. Staðan í loftslagsmálum nú er að mörgu leyti mikið breytt frá því sem var fyrir samþykkt Kyoto-bókunarinnar. Markaður fyrir kolefni er nú fyrir hendi, sá stærsti og virkasti í ríkjum ESB sem sett hafa upp viðskiptakerfi fyrir losunarheimildir kolaorkuvera og annarra stórra losenda af ýmsu tagi. Ísland er í raun nú þegar þátttakandi í þessu viðskiptakerfi í gegnum EES-samninginn en hér er sem stendur engin starfsemi sem fellur undir kerfið. Það mun breytast á næsta skuldbindingartímabili, fyrst mun kerfið ná til losunar frá flugrekstri frá og með 1. janúar 2012 en síðar, frá 1. janúar 2013, taka til losunar frá stóriðju, svo sem áls og járnblendis.

Það er nefnt í þessu svari því að ljóst er að stóriðja sem fengið hefur undanþágur frá ákvæðum Kyoto-bókunarinnar í gegnum íslenska ákvæðið mun smám saman þurfa að fara að greiða fyrir losun gróðurhúsalofttegunda í viðskiptakerfi ESB þegar nýtt skuldbindingartímabil tekur við. Íslenska ákvæðið missir því að stórum hluta gildi sitt þar sem íslensk stóriðja mun þurfa að taka á sig skuldbindingar um losun, sambærilegar við þær sem önnur ríki í okkar heimshluta búa við. Þó er sá munur á stöðu fyrirtækja hér og í Evrópu að evrópsk fyrirtæki munu aðeins þurfa að standa reikningsskil gagnvart viðskiptakerfinu því að Evrópusambandið kemur fram sem einn aðili gagnvart Kyoto-bókuninni. Ísland þarf hins vegar að óbreyttu að standa reikningsskil bæði gagnvart viðskiptakerfi Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn og gagnvart nýju alþjóðlegu samkomulagi. Þetta fyrirkomulag er og yrði óþarflega flókið. Samninganefnd Íslands hefur því í umboði stjórnvalda leitað leiða með Evrópusambandinu að tryggja að skuldbindingar Íslands gagnvart EES-samningnum og alþjóðakerfinu fari saman, hugsanlega með því að Ísland taki á sig sameiginleg markmið með Evrópusambandinu gagnvart nýju alþjóðlegu samkomulagi.

Það er óvíst hvernig þessum þreifingum reiðir af, frú forseti, enda staðan í samningaviðræðunum óljós og flókin enn þótt skammur tími sé til stefnu til Kaupmannahafnarfundarins. Því hafa íslensk stjórnvöld haldið þeim möguleika opnum að ákvörðun 14/CP.7 haldi áfram óbreytt á nýju skuldbindingartímabili. Ekki verður óskað eftir rýmkun á ákvæðinu, slíkt stangast á við stefnu ríkisstjórnarinnar og eins má búast við að slík ósk myndi vekja neikvæð viðbrögð og grafa undan stöðu Íslands í viðræðunum. Það er enginn jarðvegur fyrir því að biðja um nýjar undanþágur þegar öll þróuð ríki taka á sig niðurskurð, líka ríki sem fengu heimild til aukningar í Kyoto.

Það er staðreynd að losun hefur aukist frá stóriðju á grundvelli ákvörðunar 14/CP.7 og íslenskra laga sem sett voru til að framfylgja ákvæðum Kyoto-bókunarinnar. Íslensk stjórnvöld ætla að sjá til þess að starfandi íslensk fyrirtæki þurfi ekki allt í einu að greiða að fullu allar sínar losunarheimildir í ársbyrjun 2013 í viðbót við kröfur sem gerðar verða til þeirra í viðskiptakerfi ESB. Takist ekki að finna viðunandi lausn með Evrópusambandinu hafa íslensk stjórnvöld því haldið þeim möguleika opnum eins og áður sagði að framlengja íslenska ákvæðið óbreytt. Slíkt væri slæmur kostur að mínu mati því að það er vont að þurfa að byggja á undanþágum í alþjóðlegu kerfi, sérstaklega fyrir ríki sem hefur alla burði til að vera fyrirmyndarríki í loftslagsmálum. Íslenska ákvæðið hefur einnig þá galla að það krefst flókins bókhalds og það kemur í veg fyrir að aðrir geirar en stóriðjan geti selt heimildir úr landi ef þeir standa sig umfram væntingar.

Staðan í samningaviðræðunum er flókin en ég vil taka saman í lokin helstu atriðin varðandi hana: Íslenska undanþáguákvæðið verður vonandi óþarft í Kaupmannahöfn og losun sem fellur undir það nú verður vonandi færð undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins. Þar munu íslensk stóriðjufyrirtæki, bæði gömul og ný, taka á sig sömu skuldbindingar og fyrirtæki innan ESB. Unnið er að útfærslu á þessari lausn innan loftslagssamningsins og í viðræðum við Evrópusambandið en í raun er ekki hægt að ganga frá slíkri lausn fyrr en skýr drög liggja fyrir að væntanlegu Kaupmannahafnarsamkomulagi.

Þau liggja ekki fyrir í dag en vilji íslenskra stjórnvalda er skýr.