137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

íslenska undanþáguákvæðið.

41. mál
[14:53]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Forseti. Eins og kom skýrt fram í máli hæstv. umhverfisráðherra hafa íslensk stjórnvöld ekki lokað neinum dyrum í samningaviðræðum um loftslagssamninginn sem vonandi lýkur í Kaupmannahöfn í lok þessa árs.

Það sem skiptir þó mestu í þessum viðræðum og í þessu samhengi fyrir Íslendinga og íslenska hagsmuni er að stjórnmálamenn og þau fyrirtæki sem í hlut eiga geri sér grein fyrir hvað það þýðir að vera hluti af viðskiptakerfi Evrópusambandsins, sem við erum og höfum verið frá 2005, og að innleiðing þess árið 2012 og 2013 þýðir að allar losunarheimildir í stóriðju á Íslandi munu falla undir og verða verðlagðar (Gripið fram í.) á þeim markaði. Það mun hafa mest áhrif á umhverfi þessara fyrirtækja til framtíðar.

Þessi innleiðing og hið evrópska umhverfi eru sá rammi sem stjórnvöld vinna eftir, (Forseti hringir.) hvort heldur er innan samninganna eða hér heima.