137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

íslenska undanþáguákvæðið.

41. mál
[15:02]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Það fæðast hérna nýjar fyrirspurnir í fyrirspurnatímanum þannig að ég reyni að bregðast við því.

Ég vona að það hafi komið nógu skýrt fram í máli mínu að við viljum losa okkur undan ákvæðinu og vegna spurningar hv. þingmanns hér alveg í lokin eru það fyrirtækin sjálf sem munu greiða fyrir heimildirnar eins og við sjáum þetta.

Ég vil þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að minna mig á Kína, Indland og Sádi-Arabíu, það er alltaf gott að vera minntur á heimskortið. Hins vegar vil ég sérstaklega fagna sýn hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, sem sýnir mér að það kvarnast líka úr þeim hópi, hinum harða kjarna Framsóknarflokksins sem hefur lagt mjög mikið upp úr hefðbundinni stóriðjusýn sem einu leiðinni í framsókn íslensks samfélags. Ég deili með honum þeirri sýn að Ísland verði sjálfbærasta ríki heims og ég held að við eigum ekkert að setja markið lægra en það.

Þau markmið sem eru fram undan í tengslum við loftslagssamninginn verða auðvitað gríðarlega stór og að ýmsu leyti flókin, það snýst um samkomulag og samstarf allra hlutaðeigandi ráðuneyta, sveitarfélaga, atvinnulífs og ekki síst alls almennings. Raunverulegur árangur í loftslagsmálum snýst um það að allur almenningur átti sig á því að með hegðun okkar erum við alltaf að hafa áhrif á umhverfið. Slík vitundarvakning verður því að vera hluti af því hvernig við síðan vinnum að markmiðum okkar, sem væntanlega og vonandi verða með þeim metnaðarfyllstu sem við sjáum í heiminum og m.a. með því að losa okkur undan íslenska ákvæðinu svokallaða.