137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

undirbúningur að innköllun veiðiheimilda.

6. mál
[15:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Þetta var aldeilis fróðleg lesning upp úr stjórnarsáttmálanum og fróðlegt að sjá hvernig þeir félagar túlkuðu stjórnarsáttmálann á mismunandi vegu. Hér kemur enn á ný fram ágreiningur og mismunandi málefnatúlkun á milli þessara ágætu stjórnarflokka. Fyrirspyrjandinn gat ekki leynt gremju sinni yfir því að hæstv. ráðherra ætlaði að fara í of mikið samráð, m.a.s. við hagsmunaaðila í greininni og þetta mundi ekki hefjast nógu snemma, hann gat ekki leynt gremju sinni yfir því.

Ráðherrann talaði hins vegar um nauðsyn sáttar, samráðs og að fara varlega í þessa hluti enda væru miklir hagsmunir undir. Ég tek undir það með ráðherra en ég vil hins vegar gefa honum góð ráð. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra — í nafni sáttar, í nafni samráðs og til að ráðherra sýni að það er einhver raunveruleg meining á bak við það að vilja gera sjávarútveginn, fiskveiðistjórnarkerfið, þannig að það verði um það sátt — til að hætta við (Forseti hringir.) boðaða fyrningarleið og fara í endurskoðun sem hefur ekki fyrir fram gefna (Forseti hringir.) niðurstöðu þannig að hugsanlega náist um (Forseti hringir.) einhver sátt um þetta mál. (Gripið fram í.)