137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

undirbúningur að innköllun veiðiheimilda.

6. mál
[15:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér birtist ágreiningur ríkisstjórnarflokkanna enn einu sinni. Maður fer að hugsa hvort ríkisstjórnin lifi fram yfir haustið 2010, eins og kom hér fram áðan, ef það haustar mjög snemma það árið verður þessari vinnu kannski lokið.

Ég er komin hingað upp til að brýna hæstv. sjávarútvegsráðherra til að skoða þessi mál vel. Þetta er undirstöðuatvinnuvegur okkar. Ekki má fara af stað með eitthvert óundirbúið mál sem gæti jafnvel rústað greininni. Ég skal fylgja Vinstri grænum eftir ef þið lofið að fara að loforðunum sem þið gáfuð fyrir kosningar að skoða þessi mál vel og fara ekki að hendast á eftir samstarfsflokki ykkar í ríkisstjórn með þessa vanhugsuðu fyrningarleið sem raunverulega kemur til með að rústa greininni ef hún verður farin.