137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

undirbúningur að innköllun veiðiheimilda.

6. mál
[15:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa talað hér og fagna mjög hvernig hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nálgast þetta mál. Hann er greinilega búinn að átta sig á því að þetta er ófær leið, búinn að fá margar upplýsingar um það og ég er mjög sáttur við það.

Ég fagna ekki alltaf samstöðuleysi ríkisstjórnarinnar vegna þess að því fylgir mikill kostnaður fyrir þjóðina. Í þessu máli fagna ég þó sérstaklega ósamkomulagi milli ríkisstjórnarflokkanna vegna þess að þetta er, eins og margoft hefur komið fram, gjörsamlega galin hugmynd. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmenn sem tala af miklum sannfæringarkrafti um fyrningu aflaheimilda sem hefur þegar verið bent á að sé algjört brjálæði vilji ekki hugsa aðeins aftur í tímann og skoða hvernig þeirra menn hafa hunsað allar ráðleggingar og aðvaranir frá mönnum sem hafa einhverja aðra skoðun en þeir á málunum. Ég held að það væri hollt fyrir alla að (Forseti hringir.) gera það.