137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

undirbúningur að innköllun veiðiheimilda.

6. mál
[15:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mér var þannig farið þegar ég hlustaði á hæstv. ráðherra að ég var eiginlega engu nær og mig langar til að skerpa á þeirri hugsun sem í spurningunni felst. Ætlar hann að taka þessar veiðiheimildir af útgerðinni? Er sá ásetningur hans í samræmi við stjórnarsáttmálann? Og svo kannski það sem er öllu áhugaverðara þegar búið er að ríkisvæða kvótann — þetta er ríkisvæðing, það er ekkert annað, og ég geri mikinn mun á þjóð og ríki, mjög mikinn mun — ríkið ætlar sem sagt sem lögpersóna að hirða allan kvótann og þá kemur spurningin sem kannski er öllu alvarlegri: Hvernig ætla menn að deila þessu aftur út? Ætlar hæstv. ráðherra að sitja, gefa, deila og drottna, gefa þessu byggðarlagi, þessum vinum sínum o.s.frv. kvótann?