137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

undirbúningur að innköllun veiðiheimilda.

6. mál
[15:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrningarleiðin snýst um það að jafna aðgang allra landsmanna að einni helstu auðlind okkar Íslendinga, að það sé ekki fámennur, fyrir fram útvalinn hópur sem hafi einn rétt til að stunda þessa atvinnu.

Virðulegur forseti. Ég var kjörinn á þing á grundvelli stefnu sem ég bar fram í aðdraganda alþingiskosninga. Sú stefna gerði ráð fyrir innköllun og endurráðstöfun veiðiheimilda og var höfð til grundvallar við gerð stjórnarsáttmála sem er sú málamiðlun sem ég var reiðubúinn að gera varðandi mínar hugmyndir um innköllun og endurráðstöfun veiðiheimilda. Fram hefur komið að ég er reiðubúinn til að fyrna veiðiheimildir á mun styttri tíma en stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir og ég tel raunar að sú skoðun eigi mikinn hljómgrunn í þjóðfélaginu. Ég var ekki kosinn á þing til að láta hagsmunasamtök ákveða fyrir mig á hvaða grundvelli lögum yrði breytt. Stuðningur minn við ríkisstjórn Íslands er ekki grundvallaður á blindri trú á ágæti míns stjórnmálaflokks. Þannig vinnubrögð runnu sitt skeið á enda í fyrrahaust þegar Ísland glataði efnahagslegu sjálfstæði sínu. Minn stuðningur við ríkisstjórn er bundinn við stjórnarsáttmála og orð skulu standa. (Gripið fram í: Gott að heyra.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)