137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

undirbúningur að innköllun veiðiheimilda.

6. mál
[15:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt að fátt er meira umdeilt í samfélagi okkar en stjórn fiskveiða. Við höfum bæði skoðanakannanir um hana og mat fjölmargra. Ég minni í þessu sambandi á skoðanakönnun sem Háskólinn á Akureyri gerði meðal framhaldsskólanema sem sýndi að mikill meiri hluti nemenda lítur svo á að sjávarútvegurinn sé mikilvægasta atvinnugrein framtíðarinnar á Íslandi, að hún muni skipta mestu, en einungis 2–3% gátu samt hugsað sér að starfa við greinina. Það sýnir að það er fullkomin ósátt um greinina eins og er og hún nýtur ekki þess trúnaðar og þess trausts sem hún þarf að njóta. Allir aðilar verða að taka það alvarlega, hvort sem þeir eru núna í útgerð eða tengjast þessum málum annars staðar, það verður að taka niðurstöðuna alvarlega og vinna í sátt. Þeir sem halda því fram að hér eigi að vera óbreytt kvótakerfi eru eins og ég hef sagt í fullkominni veruleikafirringu.

Það að við nálgumst málið nú með því að skapa breiða umræðu, köllum á upplýsingar um þau stóru og miklu álitaefni sem uppi eru, fáum þau inn og vinnum úr þeim, kalla ég ekki annað en að vinna á grundvelli stjórnarsáttmála Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar þar sem við ætlum að vinna í samráði. Stefnan sem unnið er eftir og ég las upp áðan og er formálsgrein fyrir stefnu um stjórn fiskveiða og fyrir þessa auðlind af hálfu flokkanna er skýr. Samráðið og sáttaumgjörðin og að við ætlum að leita sátta í þessu máli er leiðin (Forseti hringir.) en auðvitað tökum við síðan þær ákvarðanir sem nauðsynlegt er að taka þegar (Forseti hringir.) við höfum safnað að okkur þeim upplýsingum sem á þarf að halda til að sem breiðust sátt skapist meðal allrar þjóðarinnar. Það er (Forseti hringir.) mjög brýnt.