137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

hvalveiðar.

64. mál
[15:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir fyrirspurn hans. Ég vil í upphafi máls míns taka fram að Ísland hefur í málflutningi sínum á alþjóðavettvangi lagt áherslu á rétt ríkja til sjálfbærrar nýtingar lifandi auðlinda hafsins þar á meðal hvalastofna. Afstaða Íslands er öðrum þjóðum kunn og liggur skýrt fyrir, m.a. á heimasíðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og víðar. Öllum fyrirspurnum vegna hvalveiða Íslendinga er svarað með stöðluðu tölvubréfi þar sem gerð er grein fyrir afstöðu stjórnvalda í hvalveiðimálum. Íslendingar áskilja sér rétt til sjálfbærrar nýtingar hvalastofna í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Við höfum sýnt fram á að hvalveiðar Íslendinga eru sjálfbærar enda byggðar á vísindalegri ráðgjöf í samræmi við alþjóðaskuldbindingar hafréttarsamkomulags Sameinuðu þjóðanna. Þessi sjónarmið eru svo áréttuð í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar segir jafnframt að Íslendingar áskilji sér hér eftir sem hingað til rétt til nýtingar sjávarauðlinda samkvæmt þessum alþjóðlegu skuldbindingum.

Eins og greint var frá 18. febrúar síðastliðinn mun ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, um hvalveiðar í atvinnuskyni standa óbreytt fyrir yfirstandandi ár enda ekki lagaleg heimild til þess að gera þar breytingar á.

Stjórnvöld munu hins vegar fylgjast grannt með framvindu veiðanna og mála þeim tengdum og áskilja sér allan rétt til að grípa inn í verði breytingar á forsendum. Þá mun grundvöllur hvalveiða verða endurmetinn og því starfi mun verða lokið fyrir undirbúning vertíðar ársins 2010. Þetta endurmat felst m.a. í rannsókn á þjóðhagslegri þýðingu hvalveiða þar sem vegnir verða og metnir mismunandi hagsmunir.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gerði samning við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í apríl síðastliðnum um að taka að sér að leggja mat á þjóðhagsleg áhrif hvalveiða við Ísland. Í matinu verður litið til áhrifa hvalveiða á atvinnustig fjárfestingar, útflutningstekjur auk afleiddra áhrifa á ferðaþjónustu og önnur hugsanleg áhrif á aðrar atvinnugreinar. Í þessu skyni verður beitt kostnaðar- og nytjagreiningu til að bera saman jákvæð og neikvæð áhrif af hvalveiðum fyrir þjóðarhag.

Þessu til viðbótar hefur verið lagt fram og verður dreift hér á allra næstu dögum frumvarpi til laga um hvali. Núgildandi lög um hvalveiðar eru frá 1949. En hér verður þá dreift frumvarpi um hvali sem lýtur að miklu víðtækari nálgun og verndun og meðferð og ábyrgð Íslands á hvölum í íslenskri lögsögu. Drög að frumvarpi hafa verið á vef ráðuneytisins nú um allnokkurn tíma. Þeim aðilum sem vilja koma með ábendingar við frumvarpsdrögin gefst því tækifæri til þess á vef ráðuneytisins.

Þegar frumvarpið kemur hér fram og verður vonandi dreift í dag eða í vikunni, veitir bæði ráðherra víðtækari heimildir til að grípa inn í mál en líka til að tryggja aðkomu annarra aðila að því.

Þegar frumvarpið verður komið inn í þingið gefst hinum ýmsu aðilum sem vilja koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi löggjöf um hvali tækifæri til þess þannig að þingið geti fjallað um það.

Eins og ég benti á áðan er löggjöfin sem lýtur að hvölum og hvalveiðum eingöngu bundin við hvalveiðar frá 1949 og þess vegna löngu orðin úrelt. Það er einmitt mjög mikilvægt að lagaumgjörð um þessar mikilvægu tegundir í lífríkinu sé þannig að tekið sé tillit til allra sjónarmiða hvað verndun og umgengni við þessar dýrategundir varðar. Við gerum okkur grein fyrir því að í þessum efnum eru uppi ýmisleg álitaefni og margir hafa á þeim mjög sterkar skoðanir sem einnig er mikilvægt að virða og taka tillit til.