137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

efling þorskeldis.

65. mál
[15:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir fyrirspurn um þorskeldi. Þá er því fyrst til að svara að á undanförnum árum hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti stutt við eflingu þorskeldis með ýmsu móti. Úthlutað hefur verið sérstökum árlegum 500 tonna eldiskvóta til þorskeldisfyrirtækjanna. Kvótanum hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti úthlutað að fengnum tillögum frá fiskeldishópi AVS-rannsóknasjóðsins í sjávarútvegi. Kvótann hafa þorskeldisfyrirtækin nýtt til að fanga ungþorsk til eldis í kvíum. Helstu framleiðendur á eldisþorski eru Gunnvör í Hnífsdal, Þóroddur á Tálknafirði og Álfsfell á Ísafirði. Þessum þorskkvóta hefur verið úthlutað og má búast við að það verði gert með líkum hætti að öllu óbreyttu.

Á árunum 2007–2009 hafa verið veittir um 30 styrkir samtals að upphæð um 175 millj. kr. til ýmissa verkefna sem miða að því að efla þorskeldi á Íslandi. Stærsta verkefnið, kynbætur og seiðaeldi, hefur fengið um 25 millj. kr. á ári síðan árið 2006. Önnur verkefni eru smærri í sniðum og má þar nefna áhrif seltu á vaxtarhraða og fóðurnýtingu þorsks. Stjórnun vaxtar með háþróuðum ljósabúnaði og svo ýmis verkefni sem tengjast sjúkdómavörnum, umhverfi o.fl. hafa einnig verið styrkt. Árlega úthlutar AVS-rannsóknasjóður í sjávarútvegi styrkjum vegna rannsókna sem tengjast fiskeldi. Af framantöldu má sjá að þróunareldi í þorskeldi hefur fengið verulegan fjárstuðning á vegum hins opinbera gegnum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið á undanförnum árum. Einnig er þó rétt að geta þess í þessu sambandi að framlag þorskeldisfyrirtækjanna, ef við getum kallað þau svo, í þessu þróunarstarfi er mjög mikið.

Það liggur hins vegar fyrir að aðrar þjóðir eins og Norðmenn setja miklu meira fjármagn í þorskeldisrannsóknir og þróun á þorskeldi en við höfum möguleika á að gera. Það er að mínu mati mikilvægt að fara í heild sinni yfir stöðu þeirra þorskeldisverkefna og þorskeldisrannsókna sem við höfum lagt stund á á undanförnum árum og meta þær. Sérstaklega er ástæða til að meta stöðu þorskkynbóta, þ.e. þegar verið er að taka þorsk sérstaklega til kynbóta, og athuga hver er staðan á því, hvaða árangur hefur náðst og hvaða væntingar eru fyrir það til framtíðar. Ég mun því leggja áherslu á að fara í gegnum stöðu þessara mála til að geta metið framtíð þessa þróunarstarfs betur.

Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að eldi á t.d. bleikju hefur gengi geysilega vel hér á landi. Eldi bleikju er kannski sú eldisaðferð sem við eigum mesta möguleika í. Þar erum við búin að ná góðum tökum á eldistækninni, á kynbótunum og einnig á markaðsstarfinu fyrir eldisbleikju. Ég hef þess vegna lagt áherslu á það innan ráðuneytisins að kannaðir verði rækilega möguleikar okkar til aukins bleikjueldis og hvað þarf til til að við getum náð þar stóraukinni framleiðslu. Þegar við erum góð á einhverju sviði, hvort sem það er á lands- eða heimsvísu eins og við erum í bleikjueldi, er mjög mikilvægt að nýta sér það til fulls. Ég bind því væntingar við að við getum komið að og hvatt til aukins bleikjueldis þótt það sé nefnt í framhjáhlaupi í umræðunni um þorskeldið þar sem ég tel að sé mikilvægt að fara yfir stöðu mála og meta hvernig við stöndum að því í framhaldinu.