137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

efling þorskeldis.

65. mál
[15:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Hér ræðum við nýsköpun í matvælaframleiðslu, nýsköpun í matvælaiðnaði, og ég tel að sú nýsköpun verði að vera hluti af þeirri sókn sem við þurfum nú að spila í endurreisn Íslands. Ég vil hvetja ráðherrann til dáða til að setja aukið fé, ef það er fyrir hendi, í nýsköpun af þessu tagi, í þorskeldi og bleikjueldi sem hefur verið nefnt hérna líka. Ég held að það muni skila sér margfalt til baka í störfum og verðmætum þegar fram líða stundir. Við eigum ekki að vera of hrædd við nýsköpun af þessu tagi þótt sporin frá fyrri tíð hræði að mörgu leyti vegna þess að sjúkdómar eiga eftir að koma upp í þessari grein. Þess vegna eigum við að leggja áherslu á rannsóknir og forvinnu.

Á Vestfjörðum hefur náðst talsverður árangur í þorskeldi og þar hafa menn jafnvel stundað skelrækt í tengslum við þorskeldi. En ég hvet til þess að þessi mál verði líka skoðuð heildstætt, (Forseti hringir.) þar er mikið undir. Ef við setjum fjármagn í rannsóknir og þróunarstarfsemi t.d. á Vestfjörðum (Forseti hringir.) í þessum efnum geta Vestfirðir orðið mun meiri matarkista og uppspretta verðmæta en þeir (Forseti hringir.) eru í dag.