137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

efling þorskeldis.

65. mál
[15:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir afar góða umræðu og hvatningu þingmanna í þessum efnum sem lýtur að eflingu matvælaframleiðslunnar og eflingu framleiðslugreinanna. Við þurfum svo sannarlega á því að halda núna að draga fram mikilvægi framleiðslugreinanna hvort sem er í sjávarútvegi eða í landbúnaði. Það er í gegnum framleiðslugreinarnar, eflingu þeirra sem við munum sækja fram við endurreisn efnahagslífsins á ný. Þetta eru innlendar auðlindir, þetta er innlend atvinna, þetta er innlend þekking sem við styðjumst þarna við til að framleiða hágæðavöru til útflutnings, til gjaldeyrisöflunar.

Ég mun að sjálfsögðu skoða þetta áfram innan þeirra marka. Við þekkjum umræðuna um fjárvöntun í samfélaginu en við horfum nú á þær greinar sem verið er að tala um. Það er líka sjálfsagt að gera úttekt og meta stöðuna, hvar við erum stödd í þorskeldinu, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson minntist á, og sjá hver hin raunverulegu sóknarfæri eru bæði til lengri og skemmri tíma í þeim efnum og það mun ég láta gera. En samtímis þurfum við að horfa til eldis á öðrum fisktegundum þar sem við búum líka yfir mikilli þekkingu, tækni og möguleikum til að ná enn þá skjótvirkari árangri. En við eigum að sækja á framleiðslugreinarnar og ég þakka fyrir mjög góða hvatningarumræðu í þeim efnum.