137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

vegaframkvæmdir á Vestfjörðum.

66. mál
[16:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa þakkað ráðherra fyrir upptalningu hans á framkvæmdum sem brýnt er að fara í á Vestfjörðum. Ég tek að sjálfsögðu undir það.

Ég spurði einnig: Hvernig hyggst ráðherra beita sér fyrir því að hraða þessum framkvæmdum? Hann svaraði því reyndar ekki áðan. Ég geri ráð fyrir að það komi í lokaræðu hæstv. ráðherra. Því tengt held ég að það sé ágætt að hæstv. ráðherra upplýsi, þ.e. ef hann getur, hvort það komi til greina og hvort verið sé að ræða um t.d. Dýrafjarðargöng eða aðrar mjög stórar framkvæmdir á Vestfjörðum, sem eru mjög brýnar, í þeim pakka sem ríkisstjórnin er að velta fyrir sér að hrinda af stað. Það er rætt um að það eigi að fara í samgönguframkvæmdir, ef ég skil málið rétt, og því hlýtur að vera kjörið að ráðast í framkvæmdir sem hafa beðið áratugum saman og ýmist verið frestað út af þenslu eða kreppu.

Mig langar til að ráðherra skýri betur hvernig hann hyggst beita sér fyrir að hraða framkvæmdum og einnig hvort hann geti staðfest eða upplýst um það að á borði ríkisstjórnarinnar séu stórar framkvæmdir eins og þær sem hér hefur verið rætt um.