137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

verkefnastaða í vegaframkvæmdum á Vestfjarðavegi 60.

68. mál
[16:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til samgönguráðherra hver sé verkefnastaða í vegaframkvæmdum á Vestfjarðavegi 60. Fyrirspurnin er í fjórum liðum:

1. Hvað líður framkvæmdum þeim sem boðnar hafa verið út á kafla Vestfjarðavegar 60 frá Vatnsfirði að Þverá í Kjálkafirði?

2. Hver er staðan varðandi veginn fyrir Kjálkafjörð og Mjóafjörð í Kerlingarfirði (þverun þessara fjarða að hluta) og inn fyrir Eiðið í Vattarfjörð, sem nú er að fara í umhverfismat, og hvenær má vænta þess að sú framkvæmd verði boðin út?

3. Hvað líður málarekstri og umhverfismati vegna leiðarinnar um Skálanes, fyrir Gufufjörð og Djúpafjörð í Hallsteinsnes og inn Þorskafjörð (um eða ofan við Teigsskóg)?

4. Hvað líður undirbúningi að þverun Þorskafjarðar?

Ástæða fyrirspurnarinnar kom m.a. fram í umræðunni sem átti sér stað hér rétt áðan, þ.e. ófremdarástand það sem árum og áratugum saman hefur viðgengist í vegamálum á sunnanverðum Vestfjörðum. Þeir vegakaflar sem hér er spurt um tilheyra allir veginum sem í reynd er eina leiðin út úr fjórðungnum fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum, þ.e. tenging þeirra við landið. Þessi hluti vegakerfisins hefur aldrei verið endanlega frágenginn, hann hefur t.d. ekki enn fengið bundið slitlag. Nú hafa ofan á annað bæst við skakkaföll í formi málaferla og annarra erfiðleika sem eru með þvílíkum ólíkindum að það hvarflar helst að manni að þessi vegakafli sé í álögum, þarna séu huldar vættir að verki.

Svo einfalt er það sjálfsagt ekki og til að skýra málið og átta sig betur á því hver staðan er beini ég þessari fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra og vænti þess að við getum átt hér svolitla umræðu um þetta í framhaldinu.