137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

verkefnastaða í vegaframkvæmdum á Vestfjarðavegi 60.

68. mál
[16:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin, en það sem kemur fram í svörum hans er einmitt það sem við erum að benda hér á, þingmenn kjördæmisins. Fjórar spurningar liggja fyrir hæstv. ráðherra.

Fyrstu spurningunni svarar hann á þann hátt að það sé í lagi — tvær hinar stóru framkvæmdir, búið er að kæra þær báðar og það er í ferli. Síðan kemur kunnuglegt svar frá Vegagerðinni um hagkvæmni þess að ekki þurfi að þvera Þorskafjörð vegna þess að þar sé svo lítil umferð. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að það getur engin umferð orðið á þessum vegum, það mun engin umferð verða fyrr en það eru komnir vegir þannig að þetta dæmir sig sjálft.

Ég ítreka það að ég held að menn ættu að grípa til einhverra almennilegra ráða áður en samfélögunum blæðir endanlega út á þessum stöðum.