137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

malarvegurinn fyrir Melrakkasléttu.

76. mál
[16:37]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Síðasta ár, árið 2008, var mesta framkvæmdaár á Íslandi í vegagerð og árið í ár er það næstmesta. En auðvitað er þeim sem hér stendur og þeim sem í þessum sal eiga að sitja, öllum 63 þingmönnum þjóðarinnar, kunnugt um þá erfiðleika og þau vandamál sem við er að etja í ríkisfjármálum eftir efnahagshrunið á síðasta ári. Það mun koma til einhvers niðurskurðar í samgönguframkvæmdum alveg eins og í öllu öðru hjá hinu opinbera.

Af því að hv. þingmaður ræðir um þau svæði sem hvað verst eru stödd í samgöngumálum má benda á að við niðurskurð þorskaflaheimilda árið 2007 tók þáverandi ríkisstjórn ákvörðun um að gefa í í samgönguframkvæmdum, að setja af stað svokallaðar flýtiframkvæmdir í landsbyggðarkjördæmunum þremur og eftir því hefur verið unnið. Það eru þau verk sem eru í gangi núna og mörgum þeirra er að ljúka á þessu ári.

Síðan verður að koma í ljós hver forgangsröðunin er. Hv. þingmaður kemur úr landsbyggðarkjördæmi og talar um samgöngur úti á landi og síðan koma höfuðborgarþingmenn og tala um samgöngumál hér á höfuðborgarsvæðinu sem snúa meira að umferðaröryggi og öðru slíku.

Ég hef stundum sagt, virðulegi forseti, að þarfirnar eru oft gjörólíkar. Úti á landi er á mörgum stöðum spurning um hvort menn komist frá A til B, hvort það er fært yfir höfuð. Ég tek oft Vopnafjörð sem dæmi en þar þurfa íbúar að búa við þungatakmarkanir og gert það alla tíð þar sem þeir koma ekki fiskafurðum sínum í burtu. En hér á höfuðborgarsvæðinu er það spurning um á hvað mörgum mínútum menn komast frá A til B og hvort þeir komist á öruggan hátt eða þurfi að sitja í biðröðum í umferðartöfum á morgnana og í síðdegisumferðinni sem er líka þjóðhagslega (Forseti hringir.) mjög óhagkvæmt. Virðulegi forseti. Það verður verkefni okkar alþingismanna (Forseti hringir.) að sigla þann góða meðalveg sem þarf í þessu eins og svo mörgu öðru.