137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

björgunarbúningar og öryggisfræðsla sjómanna.

84. mál
[16:43]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrri spurning hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar hljóðar svo: Hvað finnst ráðherra um að ekki er skylt að hafa björgunarbúninga í bátum styttri en tólf metrar og stendur til að breyta reglunum um það?

Siglingastofnun Íslands lagði fram í lok árs 2004 tillögu til samgönguráðuneytisins um breytingu á reglum númer 189/1994, sem kváðu á um að hvert skip, tólf metrar að lengd og lengri, og bátar undir tólf metrum sem notaðir eru í atvinnuskyni skyldu búnir björgunarbúningum fyrir alla skipverja. Tillagan hafði þá fengið umfjöllun í Siglingaráði og verið samþykkt þar en ekki samhljóða. Landssamband smábátaeigenda setti sig á móti slíkri skyldu.

Á meðal þeirra atriða sem þóttu mæla með að hafa björgunarbúninga um borð voru þau að slíkir búningar væru þegar um borð í fjölda báta, að þeir væru mun öflugri öryggistæki en flotvinnugallar og ekki yrði um auknar skoðunarkröfur að ræða. Á hinn bóginn komu fram nokkur sjónarmið gegn þessari skyldu. Björgunarbúningar þóttu t.d. rýra öryggi því að augnablikshik um hvort fara ætti í björgunarbát eða björgunarbúning gæti skipt sköpum og að tíminn sem það tæki að klæðast björgunarbúningi væri of langur.

Þá komu einnig fram atriði eins og plássleysi væri þegar það mikið að ekki væri heppilegt að bæta við búnaði fyrir björgunarbúninga auk þess sem kostnaður við þá væri of mikill. Þá var bent á að fræðsla væri betri aðferð í þessu efni en skylda. Að lokum var fallið frá því að gera það að skyldu að hafa björgunarbúning um borð. Það var gert af þáverandi samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssyni.

Síðari spurning hv. þingmanns hljóðar svo: Finnst ráðherra ástæða til að taka upp einhvers konar eftirlit með því hvaða sjómenn á bátum styttri en tólf metrar hafi lokið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna?

Lög gera ráð fyrir því að allir sem starfa á fiskiskipum sem eru lögskráningarskyld gangist undir öryggisfræðslu sjómanna samanber reglugerð um lögskráningu sjómanna nr. 880 frá 2001, með síðari breytingum. Eftirlit með því er í gegnum lögskráningarkerfi sjómanna. Ekki er hægt að lögskrá þann sem ekki er með skráð öryggisnámskeið í kerfinu eða hefur skráð sig og fengið frest Siglingastofnunar.

Segja má að með því að leggja fram frumvarp til laga um lögskráningu sjómanna á síðasta þingi þar sem m.a. var lagt til að öll fiskiskip yrðu lögskráningarskyld hafi sá ráðherra sem hér stendur verið að leggja til að eftirlit yrði haft með því að sjómenn á bátum styttri en tólf metrar hafi lokið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna. Frumvarpið náði hins vegar ekki fram að ganga en er til athugunar að leggja það fram á ný á komandi hausti.