137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

björgunarbúningar og öryggisfræðsla sjómanna.

84. mál
[16:48]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil á ný þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Ef ég hef heyrt rétt, að hann hafi þakkað mér fyrir það svar að ég ætli að setja björgunarbúninga í þessa báta, þá hefur hann aðeins oftúlkað svar mitt. Mér finnst þessi fyrirspurn hins vegar mjög merkileg og það sem hér er sett fram og það mál sem ég hef kynnt mér vegna þess að ég sé á hverju þetta hefur strandað á sínum tíma. Hv. þingmaður var í siglingaráði á þessum tíma og ég hef lesið þær fundargerðir sem þar voru skráðar en þetta er atriði sem við þurfum að taka upp núna.

Ég hef kynnt mér það, virðulegi forseti, að 20% báta, þ.e. 100 bátum af u.þ.b. 500 smábátum af þessari stærð, eru björgunarbúningar um borð. Hér sé ég líka að talað er um kostnað í andmælum gegn þessu. Ég hef kynnt mér það að viðurkenndur búningur, þurrbúningur samkvæmt Evrópusolasstaðli, kostar í kringum 100 þús. kr. í dag. Þessi atriði finnast mér ekki vera mótrök gegn því að taka upp þennan sjálfsagða búnað þannig að ég mun skoða þetta mál vel og heyri það að ég á stuðning fyrir því ef við förum þessa leið. Að mig minnir situr hv. þingmaður í hv. samgöngunefnd en það var auðvitað mjög ánægjulegt það sem gerðist á síðasta ári, þ.e. að enginn sjómaður lést við skyldustörf, var það í fyrsta skipti en vonandi ekki það síðasta.