137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

háskólasetur á Ísafirði.

63. mál
[16:58]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Háskólasetrið á Ísafirði er ákaflega merkileg stofnun. Ég mundi telja að forsendur væru til þess að þar risi í rauninni háskólastofnun, ekki bara háskólasetur, að stofnaður verði háskóli á Ísafirði. Ég sé forsendur til að hann sérhæfi sig í vísindum hafsins og sjávarlífríkisins.

En mig langar til að varpa því fram, sem innlegg í þessa heildarstefnumótun sem þarf að fara fram um háskólastigið, hvort ekki mætti efna til þrískiptrar samvinnu á háskólastigi. Maður sér t.d. fyrir sér að Háskólinn á Ísafirði, Hólar, Háskólinn á Akureyri og mögulegur háskóli á Egilsstöðum geti haft samstarf í einhvers konar blokk. Maður sér fyrir sér að sjálfstæðu háskólarnir svokölluðu, Bifröst, Listaháskólinn og Háskólinn í Reykjavík, geti verið í samstarfi. Svo sér maður fyrir sér að þriðja blokkin geti verið (Forseti hringir.) Hvanneyri, Háskóli Íslands og Keilir í einhvers konar samstarfi og jafnvel (Forseti hringir.) að háskólasetrin verði í samstarfi við Hvanneyri, hér verði til (Forseti hringir.) þrískipt háskólasamfélag. Þetta er innlegg í þessa heildarstefnumótun og jafnframt fyrirspurnina hér á eftir.