137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

háskólasetur á Ísafirði.

63. mál
[17:03]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda Gunnari Braga Sveinssyni og öðrum hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls í þessu máli og ég skynja að hér er mikill samhljómur um mikilvægi setranna. Eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á er auðvitað ljóst að þó að raunveruleikinn sé sá að við sjáum fram á mjög erfiða tíma í ríkisfjármálum og þar með talið menntamálum skiptir máli að sýnin sé skýr.

Þar sem ég hef kynnst starfsemi háskólasetra úti á landi hef ég einmitt tekið eftir því bæði hversu miklu máli þau skipta fyrir byggðarlagið og líka hversu frjó starfsemi á sér þar stað, oft í tengslum við að rækta ákveðna menningu eða sérþekkingu á svæðum eins og t.d. má nefna bæði með Vestfirðina, Höfn í Hornafirði og víðar.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á þrískipt háskólasamfélag. Hann hafði því miður ekki tíma til að ljúka þeirri ræðu en þó held ég að það sé eitthvað sem við eigum líka að velta fyrir okkur hvernig við getum samnýtt krafta setranna, með þeim skólum sem eru starfandi þeim til eflingar í lengri tíma sýn. Ég veit að inni á setrunum og inni í háskólunum eru margir eldhugar og frumkvöðlar sem sjá fyrir sér að setrin geti orðið lykilstaðir bæði í byggðaþróun á landinu en líka í framþróun háskólastarfs og hvernig við getum ræktað hér tiltekna sérþekkingu, skipt með okkur verkum og nýtt efnivið á hverju svæði til þess að auka þekkinguna. Auka þekkinguna á því sem við erum að vinna með dagsdaglega, auka þekkinguna á þeirri menningu sem er á hverjum stað, og því eru setrin svo gríðarlega mikilvæg, ekki bara fyrir atvinnustigið heldur líka fyrir byggðarlögin sjálf og búsetuskilyrðin þar og þá starfsemi sem þar fer fram, hvernig við hugsum um okkur sjálf og menningu okkar.

Annars vil ég þakka hv. fyrirspyrjanda og öðrum þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni. Ég er nokkuð viss um að hlutverk setranna mun verða til umræðu síðar í þessum sal, þegar línur (Forseti hringir.) taka að skýrast núna síðsumars eða í haust um þróun mála í háskólamálum almennt.