137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

miðstýring háskólanáms.

72. mál
[17:09]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir þessa fyrirspurn um miðstýringu háskólanáms. Hv. þingmaður vísar þar til tillögu finnsku sérfræðinganefndarinnar sem svo var kölluð, þ.e. erlendri sérfræðinganefnd finnskra sérfræðinga og sérfræðinga frá OECD sem hæstv. þáverandi menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fékk til að gera úttekt á málefnum háskóla, rannsókna og nýsköpunar í ljósi fjármálahrunsins í október 2008.

Í skýrslu erlendu sérfræðinganna er vissulega beinlínis lagt til að settir verði á laggirnar tveir háskólar, þ.e. ríkisháskólarnir HÍ, HA, Hólaskóli og Hvanneyri verði sameinaðir í kringum Háskóla Íslands og aðrir háskólar einkareknir eða sjálfseignarstofnanir verði sameinaðar í kringum Háskólann í Reykjavík. Þó er tekið fram í skýrslu erlendu sérfræðinganna að nauðsynlegt sé að halda úti öflugu háskólastarfi utan Reykjavíkur. Á fundi mínum með þessum sérfræðingum tóku þeir mjög skýrt fram, og sú umræða fór t.d. fram í Finnlandi á sínum tíma að þessi sjónarmið, sjónarmið um hvar háskólastarfsemi er staðsett, séu mjög mikilvæg. Það er ekki eingöngu hægt að horfa á háskólastarfsemi út frá sjónarmiðum hagræðingar og ekki heldur eingöngu út frá akademískum gæðum, þessir tveir póstar verða að vera til staðar en það þarf líka að hafa í huga byggðasjónarmið, þannig að þó að þeir leggi þessa tillögu fram eða setji hana fram áttuðu þeir sig vel á aðstæðum hér á landi hvað varðar nauðsyn þess og hvaða áhrif þetta hefur haft á byggðina.

Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson segir og ég er sammála honum um það að Háskólinn á Akureyri sé ein best heppnaða byggðaaðgerð Íslandssögunnar. Ekki síst af því að hún byggist á menntun, hún er sjálfbær eins og það heitir á máli umhverfisins, þ.e. hún hefur ekki nein spjöll í för með sér heldur rúllar áfram og vex, þekkingin vex, starfsemin eykst og eyðir takmarkaðri orku en skapar um leið meiri þekkingu og þar með meiri auðlindir í kringum sjálfa sig.

Ég vil nefna að samhliða skýrslu erlendu sérfræðinganna kom önnur skýrsla fram frá innlendri nefnd þar sem var lagt til að háskólum yrði fækkað jafnvel niður í tvo en engin tillaga gerð um það hvaða háskóla ætti að sameina eða hvernig. Kannski má segja að meginskilaboðin séu að það þurfi að efla samstarf háskóla á Íslandi og með því móti megi styrkja bæði nám og rannsóknir við skólana og ná fram hagræðingu, enda erum við auðvitað með sjö háskóla starfandi í 300 þúsund manna samfélagi sem þætti ansi vel í lagt svona á flesta mælikvarða. Það væri auðvitað áhugavert að vita hvað hv. þingmanni finnst um það almennt, þ.e. um sameiningar háskóla almennt og hvort hann sér einhverjar leiðir í því.

Eins og fram hefur komið hér í þessum sal hef ég skipað rýnihóp til að fara yfir þessar tillögur þar sem m.a. sitja fulltrúar háskólasamfélagsins sem þekkja vel til starfsemi allra háskóla á Íslandi, þar á meðal einn sem er starfandi við Háskólann á Akureyri. Sá rýnihópur mun skila tillögum að aðgerðum til ráðherra seinna í sumar. En það er ljóst að þar er í raun og veru allt undir, endurskipulagning, möguleikar til samstarfs, sameiningar, skoðun á fjármögnun, skoðun á námsfyrirkomulagi og hugsanlegu sameiginlegu utanumhaldi.

Ég hef lagt á það áherslu að það er hægt að ná fram auknu samstarfi án þess endilega að sameina stofnanir. Spurningin er auðvitað sú: Skilar það einhverri hagræðingu eða sparnaði, t.d. að sameina stofnanir, aðra í Reykjavík og hina á Akureyri, svo dæmi sé tekið, ef á að halda starfseminni úti á báðum stöðum? Við þurfum auðvitað að spyrja þeirra spurninga.

Ég er sammála hv. þingmanni að háskólanámi á alls ekki að vera miðstýrt. Það er einmitt lykillinn að ákveðinni grósku í vísindastarfi að miðstýringin sé takmörkuð og að því leytinu skil ég áhyggjur hv. þingmanns en ég lít svo á að við séum með málið í ákveðnum farvegi þar sem við ætlum að taka öll þessi sjónarmið inn í, hvernig við getum haldið uppi akademískum gæðum, hvernig við getum náð fram hagræðingu og hvernig við getum styrkt byggðasjónarmið í kringum háskólastarf á Íslandi. Þar er allt til skoðunar en ég hef lagt á það áherslu að leiðarljósin séu ákveðin, þ.e. að við eflum samstarf, skoðum verkaskiptingu en viðhöldum um leið því sem ég vil kalla heilbrigða samkeppni, einkum hvað varðar gæði í vísindastarfi en líka bara almennt um gæði í kennslu og öðru slíku þannig að þessi sjónarmið náist fram. Ég er opin fyrir hvaða leiðir eigi að fara að því marki.