137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

miðstýring háskólanáms.

72. mál
[17:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka gott svar hæstv. menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, áðan og einnig hvatningu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Hæstv. ráðherra nefndi orð sem skipta sköpum í þessari umræðu, það eru orðin akademísk gæði. Við þurfum að hafa akademísk gæði að leiðarljósi þegar við höldum þessari umræðu á lofti. Ég held að það sé mjög brýnt, ekki aðeins út frá byggðarlegu sjónarmiði, svo að ég taki það skrýtna orð mér í munn, heldur líka út frá sjálfstæði háskólanna, sjálfstæði menntunar og samkeppni menntunar að ef kemur til þess að við höfum tvo sjálfstæða háskóla og einhver útibú frá þeim þá séu þessir tveir háskólar einmitt ekki á sama staðnum. Ég vek athygli á þeirri leið sem t.d. Norðmenn fóru með sitt fjármálaeftirlit. Þeir fluttu það út á land vegna þess að þeir vildu ekki að starfsmenn fjármálaeftirlitsins væru á sama stað í hádegismat og þeir sem væri verið að rannsaka á hverjum einasta degi. Þessi hugsun þarf að vera til staðar í háskólasamfélaginu, að við búum til sjálfstæða hugsun ekki á sama blettinum heldur skiljum þar að landfræðilega. Ég held að akademísk gæði fáist út úr því.

Ég vil líka hafa mannréttindamál í huga. Þegar við þingmenn förum um dreifð kjördæmi hittum við þar sérstaklega mæður og þær segja allir eitt og hið sama: Það skiptir sköpum fyrir okkur um það hvar við búum hvar styst er í góða heilsugæslu og góða menntun. Þannig hugsa mæður þessa lands og ég held að hæstv. menntamálaráðherra eigi einmitt að hafa þessi orð íslenskra mæðra í huga þegar kemur að sjálfstæði háskólanna á Íslandi.