137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

breytingar á raforkulögum.

75. mál
[17:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu og tek að mörgu leyti undir það sem hv. þm. Jón Gunnarsson og Gunnar Bragi Sveinsson nefndu hér í pontu áðan, að það er full mikið í lagt að bíða eftir störfum nefndarinnar til ársloka 2010.

Það verður að hafa hér hraðann á, skynsamlegan hraða á, vegna þess að ef það er eitthvað sem okkur Íslendinga vantar á þessari stundu þá er það sá sveigjanleiki sem nýtist atvinnuuppbyggingu hratt og vel.

Það er umhugsunarvert að enn þann dag í dag, eins og fram kom í máli hæstv. iðnaðarráðherra, er skiptingin á milli stórnotenda annars vegar og heimilanna hins vegar. Það er í reyndinni með ólíkindum að það hafi ekki verið fundin viðeigandi lausn á þessum raforkumálum, atvinnulífinu um allt land til heilla. Ég ætla ekki að álasa hæstv. núverandi iðnaðarráðherra fyrir að hafa ekki komið þessu máli áleiðis. Hún er einungis búin að vera nokkrar vikur í starfi. En ég skora á hana að flýta starfi nefndarinnar atvinnulífinu til heilla.

Og ég hlýt að grípa grænmetisræktendur á lofti af því þeir voru nefndir áðan. Það er umhugsunarvert að við Íslendingar framleiðum ekki nema 40% af því grænmeti sem við neytum á hverju ári. Kannski er það vegna þess að við leggjum stein í götu þessarar grænu stóriðju í landi þar sem talsvert er til af grænni orku.