137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

staðgöngumæðrun.

86. mál
[17:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. heilbrigðisráðherra og varðar hún svokallaða staðgöngumæðrun en það er eitt þeirra úrræða sem konur sem af einhverjum ástæðum geta ekki eignast börn geta gripið til. Sem dæmi má nefna sístækkandi hóp kvenna sem gengið hafa í gegnum erfiðar krabbameinsmeðferðir á unga aldri og hafa með framförum í læknavísindunum blessunarlega lifað þá meðferð af en með þeim afleiðingum að þeim verður ekki barna auðið með hefðbundnum hætti. Þetta eru dæmi um svokallaðar síðbúnar afleiðingar sem Samtök krabbameinssjúkra barna hafa t.d. fjallað mikið um á vettvangi sínum á síðustu árum.

Ég beindi fyrirspurn til hæstv. ráðherra fyrr í vetur og innti hann eftir fréttum um stöðu vinnuhóps sem fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra skipaði í janúarmánuði sl. til að meta siðfræðileg, lögfræðileg og læknisfræðileg álitaefni varðandi staðgöngumæðrun. En þetta er ekki einfalt mál, það eru ýmis atriði sem þarf að skoða. Það sem fyrir mér vakti í upphafi, þegar ég vakti máls á þessu, var einmitt að koma þeirri umræðu af stað. Þetta úrræði hefur verið bannað hér á landi og síðast þegar lögum um tæknifrjóvgun var breytt var ákveðið að gera ekki breytingar á lögunum án þess að umræða hefði farið fram og þess vegna fagnaði ég því þegar hæstv. ráðherra skipaði starfshópinn á sínum tíma.

Nú er ég orðin forvitin að vita hvað þessu nefndarstarfi líði. Það er mín skoðun að nefndin þurfi ekki endilega að taka sér mikinn tíma í þetta mál. Það er um að gera að koma með niðurstöðu eins fljótt og auðið er vegna þess að eðli málsins samkvæmt er þetta mál sem þolir ekki mikla bið þar sem líffræðilega klukkan tifar hjá konunum og einnig geymast fósturvísar ekki lengi. Það eru margir aðilar sem ég hef verið í sambandi við úti í samfélaginu sem bíða í óþreyju eftir því hvort þetta verði leyft eða ekki og þess vegna beini ég áðurnefndri fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra.