137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

staðgöngumæðrun.

86. mál
[17:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég er sammála honum um margt. Ef þetta mál verður leyst þá er ég algerlega sammála því að setja þarf um þetta ströng skilyrði og ég tek undir það að undirbúningur þarf að vera vandaður — ekki síst tek ég undir það að almenn umræða þarf að fara fram. Það er einmitt það sem vakir fyrir mér. Þess vegna hef ég verið að vekja athygli á þessu máli til þess einmitt að slík umræða fari af stað. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann vísaði til þess að hann ætlaði að stuðla að umræðunni, hvort jafnvel standi til að halda einhvers konar ráðstefnu eða málþing eða koma umræðunni þannig af stað, það virðist nefnilega vera svo að þetta komi upp með reglulegu millibili. Fyrir rúmu ári fór mikil umræða af stað þegar auglýsing birtist í blaði, þar sem verið var að auglýsa eftir staðgöngumæðrum. Það var frétt um þetta í sjónvarpinu í gærkvöldi og þannig kemur umræðan upp alltaf öðru hverju, en það leiðir ekki til niðurstöðu.

Það veldur mér þó vonbrigðum þegar hæstv. ráðherra segir að niðurstaða muni ekki liggja fyrir á næstu vikum eða mánuðum. Ég get sætt mig við að hún liggi ekki fyrir á næstu vikum en næstu mánuðir eru teygjanlegt tímabil og of langt fyrir minn smekk. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að leggja fast að nefndarmönnum að klára þessa vinnu. Vinnan sem þeir eru að inna af hendi er kannski til að undirbyggja lagasetningu og til þess jafnvel að koma þessari umræðu hingað inn í þingið og út í samfélagið þannig að ég tel að nefndin megi ekki liggja of lengi með málið. Einhvern tímann þarf að taka af skarið og álitamálin sem þarna eru liggja fyrir og margt af því eru hlutir sem þarf að taka af skarið með, ef svo má segja. Ég hef mikinn skilning á því og það er eitthvað sem ég mundi vilja, virðulegi forseti, leggja inn að lokum hvort hægt væri að prófa þetta með einhverjum verulega ströngum skilyrðum, þetta er ekki ætlað sem almennt úrræði.