137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.

77. mál
[18:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að því metnaðarfulla plani í landhelgisáætlun sem þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, setti fram verður erfitt að fylgja eftir við þær aðstæður sem eru í samfélagi okkar. Öryggismál á stóru hafsvæði sem eru á okkar ábyrgð eru þó alls ekki einkamál okkar Íslendinga. Í dag verðum við í ljósi breyttra aðstæðna að hefja endurskipulagningu á þessum málum sem miða við getu okkar. Val á tækjum verður alltaf í samræmi við þau verkefni sem við ætlum að leysa og þau liggja kannski nokkuð ljóst fyrir.

Í því sambandi held ég að ljóst sé að við verðum að leita allra leiða, við verðum að líta til annarra þjóða sem öryggismál á þessu hafsvæði skipta einnig miklu, vinaþjóða okkar í Evrópu og jafnvel innan NATO. Við þurfum m.a. að skoða hvort ekki sé ástæða til að semja við NATO-þjóðir og vinaþjóðir okkar um að koma og sinna þessum öryggismálum með okkur með tækjabúnaði sem þær hafa til umráða (Forseti hringir.) í stað þess að vera í einhverju loftrýmiseftirliti (Forseti hringir.) á þotum sínum. Öryggismál sjómanna og þeirra áhafna sem starfa hjá Landhelgisgæslu eru það sem við verðum að hafa að leiðarljósi.