137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.

77. mál
[18:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir heiðarleg og góð svör til þingsins. Það er alveg ljóst að hún deilir áhyggjum þeirra sem hér hafa talað varðandi öryggismál sjómanna og stöðu Landhelgisgæslunnar.

Í ljósi þeirra upplýsinga og talna sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði um í ræðustóli, að það kostaði á milli 60 og 70 millj. á ári að leigja svona tæki, og spurði hvort hugsanlega hefði verið leitað til lífeyrissjóða varðandi fjármögnun svona þyrlu, velti ég fyrir mér hvort það sé ekki hreinlega sparnaður að því að fjármagna kaup á svona tæki til langs tíma í staðinn fyrir að leigja það fyrir hundruð milljóna á ári og nýta þá það svigrúm til að spara annars staðar í rekstri þessara tækja.