137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.

77. mál
[18:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin. Hún hefur sagt að ef upp kemur neyðartilvik hjá okkur og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar verður kölluð út erum við tilbúin til að takast á við það bara upp að ákveðnu marki. Hæstv. ráðherra segist hafa fylgst með efasemdum um stöðuna þegar nýlega kom upp tilvik sem reyndar var hægt að bregðast við vegna þess að fólk fór úr fríum sínum og mér skilst líka að fólk sem búið var að segja upp hafi mætt á svæðið og allir hlupu til. Hér segir svo hæstv. ráðherra að hún taki undir áhyggjur varðandi það að þessi staða sé ekki með fullnægjandi hætti þannig að staðan er ekki góð.

Ég tel að skoða þurfi þessi mál mjög vel og sjá hvort hægt er að ná fram einhverjum sparnaði, einhverjum samlegðaráhrifum, hugsanlega með sjúkraflugi eða með samstarfi við vinaþjóðir eins og Dani sem eru með þyrlukost á skipum sínum. Þau eru talsvert mikið hér við land og í kringum Færeyjar og Grænland. En ég vil ítreka ábendingu mína til hæstv. ráðherra um að skoðað verði hvort lífeyrissjóðirnir geti komið að því að losa okkur út úr þessari ofurleigu, þetta er ótrúlega há upphæð, 60 millj. á mánuði í leigu á þyrlu. Það væri mjög gott að losna við þann leigukostnað. Ég vil að lokum spyrja hæstv. ráðherra hvort til standi að endurskoða þessi mál í heild sinni þannig að við getum verið með eina þyrluáhöfn í viðbót. Alþingi er reyndar fjárveitingavaldið, við berum auðvitað ábyrgð á þeim fjárveitingum sem við setjum í þyrlumál okkar þannig að við þingmenn berum kannski öll 1/63 af ábyrgðinni.