137. löggjafarþing — 21. fundur,  16. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[18:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hægt að reikna sig með öllum sínum hrakfallahugmyndum alveg niður í botn eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson gerir hér. Ég varð fyrir vonbrigðum með hv. þingmann því oft finnst mér hann segja margt skynugt.

Ég vil minna á skoðanakönnun sem gerð var af Háskólanum á Akureyri nú nýverið og mér finnst afar athyglisverð. Það var skoðanakönnun meðal ungs fólks, framhaldsskólanemenda en meginþorri unglinga fer í framhaldsskóla. Í fyrsta lagi var spurt: Hvaða atvinnugreinar teljið þið að skipti þjóðina mestu máli á næstunni, bæði í atvinnulegu og þekkingarlegu tilliti? Yfirgnæfandi meiri hluti nefndi sjávarútveg. Næst nefndu þeir ferðaþjónustu og svo landbúnaðinn. Þetta sýnir í hversu miklum mæli framleiðslugreinarnar eiga hug fólks núna.

En jafnframt voru nemendur spurðir hvort þeir vildu starfa við sjávarútveg. 2 –3% af þeirra voru reiðubúnir eða vildu læra eða starfa tengt sjávarútvegi. Það að ætla að reka höfuðatvinnuveg þjóðarinnar í þvílíkri ósátt eða ímyndarvanda gagnvart uppvaxandi kynslóð gengur einfaldlega ekki upp. Þeir þingmenn sem halda að hægt sé að halda öllu óbreyttu hvað þetta varðar og hafa uppi alls konar hrakyrði um það þegar verið er að feta sig inn á nýja braut sem gæti opnað þetta kerfi aðeins, þegar lítið skref er stigið til að leita sátta meðal þjóðarinnar um nálgun á þessari auðlind, (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) ég vil bara undirstrika það að þessir menn verða að horfast í augu við raunveruleikann (Forseti hringir.) og hér er góð leið til þess að fara af stað með, frú forseti.